10.7.2009

Föstudagur, 10. 07. 09.

Valhöll á Þingvöllum brann til kaldra kola í dag. Í pistli, sem ég ritaði hér á síðuna 28. ágúst 2002 sagði meðal annars:

„Síðastliðið vor náðist annað langþráð markmið, þegar ríkið eignaðist landið og húsakostinn á Valhallarlóðinni, sem fram til þess tíma hafði verið í einkaeign innan þjóðgarðsins. Hefur forsætisráðuneytið forystu um ákvarðanir varðandi nýtinu húsakostsins í samráði og samvinnu við Þingvallanefnd. Þá hefur aðstaða fyrir starfsmenn þjóðgarðsins verið bætt með nýju starfsmannahúsi við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum, en áður voru starfsmennirnir í sumardvöl að Gjábakka, en bæjarhúsið þar brann á liðnum vetri.“

Eins og þarna kemur fram brann hús að Gjábakka veturinn 2001/2002. 10. júlí 1970 brann Konungshúsið í aftakaveðri með sorglegu manntjóni eins og sagan geymir og stendur mér nærri.  Nú brennur Valhöll.

Þingvallanefnd mótaði framtíðarstefnu fyrir þjóðgarðinn árið 2004, þegar hann var skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Í henni er gert ráð fyrir aðstöðu til mannamóta á þeim stað, þar sem Valhöll hefur staðið, og takmörkuðu gistirými.

Ég er þeirrar skoðunar, að standi vilji til almenns hótelreksturs í þjóðgarðinum, eigi hann alfarið að vera í höndum einkaaðila og ætlaður staður í Skógarhólum, við rætur Ármannsfells, en ekki í þinghelginni sjálfri, þar sem Valhöll stóð.

Þegar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra fól hann Þorsteini Gunnarssyni, arkitekt, að gera úttekt á Valhöll og leggja á ráðin um framtíð hennar. Húsakosturinn var í raun næsta ósamstæður og helst var það miðhluti hússins í kringum anddyri þess, sem hafði byggingarsögulegt gildi. Skýrsla Þorsteins geymir lýsingu á sögu hússins og gerð þess.

Geir H. Haarde lét ekkert að sér kveða varðandi Valhöll sem forsætisráðherra. Frá því að forsætisráðuneytið tók húsið að sér og útleigu á rekstri þess var ráðist í nokkrar endurbætur á því. Ef ég man rétt hafa fimm rekstraraðilar komið að hótel Valhöll síðan 2002. Bendir það til þess, að umsvif hefðu mátt vera meiri.

Mig hefur undrað, að ekki skuli hafa verið kjörin ný Þingvallanefnd eftir kosningarnar 25. apríl, en í nefndinni eiga að sitja þingmenn. Mér skilst, að ákveðið hafi verið að kjósa nýja nefnd nk. mánudag. Þingvallanefnd hefur hins vegar í raun ekki haft neitt  um Valhallarreitinn að segja, því að starfsemi á honum hefur fallið beint undir forsætisráðuneyti samkvæmt því, sem ákveðið var á árinu 2002.