8.7.2009

Miðvikudagur, 08. 07. 09.

Fróðlegt væri, ef einhver fjölmiðill gerði úttekt á mismunandi viðhorfi til rannsóknar í Baugsmálinu og þess, sem nú er að gerast. Þóra Arnórsdóttir ræddi við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, í Kastljósi  að kvöldi 7. júlí og sagði fagnaðarefni, að hafnar væru húsleitir á vegum embættis hans. Mátti skilja hana á þann veg, hvort ekki væri öruggt, að þeim yrði haldið áfram og hjá fleirum.

Við samanburð á því, sem gerðist í Baugsmálinu, og aðgerðum sérstaks saksóknara, verður að hafa í huga, að lögfræðingaherinn á vegum Baugs taldi ómaklega að skjólstæðingum sínum vegið og látið var í veðri vaka, að öll rannsóknin byggðist á pólitískum grunni. Var allt kært, stórt og smátt, sem kæra mátti og leitað álits hæstaréttar, þar sem það var unnt, í því skyni að standa sem öflugastan vörð um rétt ákærðra og grunaðra.

Baugsmenn sögðust hafa varið milljörðum króna í vörnina og var fjölmiðlum þeirra meðal annars beitt til að skapa þeim meðbyr hjá almenningi.

Hæstiréttur gerði mjög strangar kröfur til ákæru í Baugsmálinu og mótaði með því fordæmi, sem hafa verður í heiðri í störfum sérstaks saksóknara. Dómurinn í Baugsmálinu og allir úrskurðir hæstaréttar hafa einnig fordæmisgildi fyrir sérstakan saksóknara og starfsmenn hans.

Þótt Þóra Arnórsdóttir telji sig réttilega tala fyrir munn almennings, þegar hún leggur áherslu á, að hinn sérstaki saksóknari láti sem víðast og mest að sér kveða, hafa slíkar brýningar minna gildi fyrir ákæruvaldið en fordæmin úr Baugsmálinu. Þau skyldu þó ekki setja hinum sérstaka saksóknara þrengri skorður en nú þykja við hæfi að mati almennings?