26.7.2009

Fyrstu ESB-skrefin – staðan í Þýskalandi – óskynsamleg tímasetning.

 

 

 

 

Vissulega var einkennilega staðið að því, að afhenda umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra í Stokkhólmi, var sendur með bréf frá þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni til ráðuneytisstjóra sænska utanríkisráðuneytisins í Stokkhólmi mánudaginn 20. júlí.

Sama dag (20. júlí)  birti vefritið www.EurAktiv viðtal  við Stefán Hauk Jóhannesson, sendiherra Íslands, gagnvart ESB og spurði hann, greinilega undrandi, hvort þessi afhending á umsókninni væri á nógu háu stjórnstigi. Stefán Haukur sagði svo vera, en umsókninni yrði fylgt eftir innan nokkurra daga eða vikna af þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Össur hitti svo Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, í Stokkhólmi 23. júlí og þá fór fram pólitísk afhending á bréfinu, sem Guðmundur Árni hafði afhent 20. júlí og Jón Baldvin Hannibalsson ritaði grein um snöfurmannlega framgöngu Össurar!

Þriðjudaginn 21. júlí hringdi  Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands í Össur til að þrýsta á að Alþingi lyki afgreiðslu Icesave-samkomulagsins og samþykkti það. Annars gæti liðið langur tími þar til Ísland fengi inngöngu í Evrópusambandið. 

Össur tók þessu að eigin sögn fálega. Miðvikudaginn 22. júlí sagði Steingrímur J. Sigfússon, að loknu símtali við Össur, að þeir félagar væru sammála um, að hollenski ráðherrann hefði verið að stunda „pólitíska loftfimleika til heimabrúks“, því að Icesave skipti engu vegna ESB-aðildar.

Að hollenskur ráðherra þyrfti að hringja í Össur til að afla sér vinsælda á heimaslóð hljómaði einkennilega. Össur sagði síðan eftir fund sinn með Bildt í Stokkhólmi, að Hollendingur kynni að verða með eitthvað múður í Brussel 27. júlí. Gaf hann þó til kynna, að á það yrði blásið. Þótt Össur og Steingrímur J, segðu hollenska ráðherrann vera að þessu til „heimabrúks“ var Martin Eyjólfsson, Evrópussviðstjóri utanríkisráðuneytisins, sendur til Haag til að róa hollensk stjórnvöld.

Þeir Össur og Steingrímur J. töldu, að Hollendingurinn væri með óeðlilega íhlutun í íslensk innanríkismál. Ekki bar hins vegar á öðru en þeir fögnuðu því, að Vygaudas Ušackas, utanríkisráðherra Litháens, kæmi hingað 25. júlí til að hvetja til aðildar Íslands að ESB og afhenda Árna Þór Sigurðssyni, formanni uatnríkismálanefndar alþingis, skjal því til staðfestingar. Skyldi Árni Þór hafa sagt ráðherranum, að hann væri sjálfur á móti ESB-aðild? Á það er bent á www.amx.is 26. júlí, að líta megi á heimsókn Litháans sem óeðlileg afskipti af íslenskum innan/utanríkismálum.

EurActiv spurðu Stefán Hauk sendiherra, hvort íslensk stjórnvöld mundu ekki leggja sig fram um að sannfæra þjóðina um ágæti ESB og hafna sjónarmiðum efasemdarmanna, lýðskrumara, um ESB. Stefán Haukur svaraði á diplómatískan hátt og taldi, að upplýsingum yrði miðlað af stjórnvöldum, auk þess sem frjáls félagasamtök með eða á móti mundu láta að sér kveða.

Sunnudaginn 26. júlí mátti lesa á ruv.is:

„Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra, vill að umsóknaferlinu að Evrópusambandinu verði frestað. Hann hefur þungar áhyggjur af samningsstöðu Íslands.

Í ljósi þess að ríki innan sambandsins beita Íslendinga beinum og óbeinum hótunum segist Jón hafa þungar áhyggjur af samningsstöðu Íslands. „Mér finnst það verulegt áhyggjuefni að fara í samninga við ríkjasamband í þeirri stöðu sem íslenska þjóðin er í núna," sagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.“

Stærstu málaflokkarnir utan EES-samningsins snúa að sjávarútvegi og landbúnaði. Vilji ráðherra þeirra mála ekki ræða neitt við ESB, verður lítið um að ræða við ESB. Berist Carl Bildt upplýsingar um þessa afstöðu Jóns Bjarnasonar fyrir ESB-utanríkisráðherrafundinn 27. júlí, ætti hann að fresta umræðum um umsókn Íslands og óska skýringa frá utanríkisráðuneyti Íslands; kalla Össur aftur á teppið.

Staðan í Þýskalandi.

Í síðasta pistli, Ísland, Þýskaland og ESB gat ég þess, að niðurstaða þýska stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe um staðfestingu þýska sambandsþingsins á Lissabon-sáttmálanum mundi draga dilk á eftir sér og hafa áhrif á umræður í baráttunni fyrir sambandsþingkosningarnar 27. september.

Frétt í nýjasta hefti The Economist (25. júlí) staðfestir þessa skoðun en þar segir, að pólitísk spennan vegna dómsins aukist jafnt og þétt.

Dómstóllinn fór þess á leit við þýska þingið, að samþykkt yrðu ný lög um vald þess í ESB-málum. Því væru takmörk sett, hve mikið vald mætti framselja til ESB. Sambandið væri ekki lýðræðisríkið og ESB-þingið ekki venjulegt löggjafarþing. Þýskaland yrði þess vegna að halda í vald til að móta borgurum landsins eigin þjóðlega umgjörð á sviði refsiréttar, skattamála, menntamála og trúmála.

Blaðið segir, að Angela Merkel vilji flýta því, að sambandsþingið fullgildi Lissabon-sáttmálann, enda hafi hún gegnt lykilhlutverki við að fá hann samþykktan í leiðtogaráði ESB. Hún vilji, að Þjóðverjar hafi komið málinu frá sér fyrir 2. október, þegar Írar greiða þjóðaratkvæði í annað sinn um sáttmálann. Þá vilji hún ekki gefa forsetum Póllands og Tékklands neina átyllu til að fresta því að rita undir fullgildingarlög um sáttmálann. Málsvarar sáttmálans óttist, að dragist fullgildingarferlið fram á 2010 kunni breski Íhaldsflokkurinn að ná völdum, áður en því lýkur, en hann vilji afturkalla samþykki breska þingsins og leggja sáttmálann fyrir þjóðina.

CSU, flokkur kristilegra í Bæjaralandi, og bræðraflokkur CDU, flokks Angelu Merkel, krefst þess, að meiriháttar ESB-ákvarðanir verði bornar undir þýsku þjóðina, s.s. aðild nýrra ríkja. CSU vill ekki, að neinn stækkunarstjóri taki við af Olli Rehn í næstu framkvæmdastjórn ESB, sem skipuð verður í haust. Þá vill CSU, að þýski stjórnlagadómstóllinn haldi upp „samrunaeftirliti“ gagnvart ESB.

The Economist telur, að Merkel takist að ýta róttækustu hugmyndum CSU til hliðar. Sjónarmið þeirra eigi þó hljómgrunn víða, meðal annars hjá frjálsum demókrötum (FDP), sem seint verði sakaðir um að vera ESB-efasemdarmenn, þeir vilji, að auka völd þýska þingsins gagnvart ESB-tilskipunum og við ákvarðanir um stækkun ESB.

Óskynsamleg tímasetning.

Þegar litið er á stöðu mála hér á landi og innan Evrópusambandsins er auðvelt að rökstyðja þá niðurstöðu, að óðagot Samfylkingarinnar í ESB-málum hafi leitt til þess, að tímasetning aðildarumsóknar Íslands sé óskynsamleg. Nær hefði verið að fresta málinu um fjögur til fimm ár.

Í raun er óskiljanlegt með íslenska hagsmuni í huga, að nú sé skynsamlegast að verja tíma og fjármunum á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu til að ræða við ESB og deila um málið á heimavelli.

ESB-málið hefur þegar leitt til djúpstæðs ágreinings innan ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra verður að bregðast við honum, til að treysta trúverðugleika stjórnar sinnar inn á við og út á við.

EurActiv spurði Stefán Hauk, sendiherra í Brussel, hvort Ísland hefði stjórnsýslulega burði til að takast á við aðildarumsókn að ESB. Sendiherrann telur svo vera. Hann segir þó ekki, hvernig að málum verður staðið, enda hafa engar opinberar upplýsingar verið birtar um það.

Fyrir liggur kostnaðarmat frá utanríkisráðuneytinu en samkvæmt því mun umsóknarferlið kosta 990 milljónir króna. Inni í þessari tölu er uppsafnaður halli á þýðingarkostnaði vegna EES, sem utanríkisráðuneytið á að borga. Talan er örugglega of lág.

Á vefsíðunni www.amx.is hefur verið sagt frá því, að verði aðildarstarfið unnið frá Brussel þurfi íslenskir embættismenn að verða 70 til 80 í borginni og hver þeirra kosti 30 til 40 milljónir á ári. Kostnaður mundi þá slaga í þrjá milljarði króna á ári.

Í öllum ráðuneytum er nú unnið að því að draga saman seglin og minnka útgjöld. Þá kemur Samfylkingin með einhliða kröfu um milljarða útgjöld vegna þess gæluverkefnis að ræða um við ESB um aðild. Ætlar Steingrímur J. að standa á sparnaðarbremsunni eða láta undan Jóhönnu og Össuri?