14.7.2009

Þriðjudagur, 14. 07. 09.

Ókum í kvöld til Þingvalla og hlustuðum kl. 20.00 á Barokkhópinn Custos í þéttsetinni Þingvallakirkju. Norðanvindurinn var sterkur, þegar við gengum frá Flosagjá að kirkjunni og heldur var hryssingslegt að sjá brunarústirnar af hótel Valhöll í rokinu.

Klukkan 18.40 var ég í Spegli RÚV og ræddi við Láru Magnúsardóttur um stefnumörkun Þingvallanefndar frá 2004 fyrir þjóðgarðinn og hvernig mál horfðu nú við, eftir að Valhöll hefði brunnið.  Ég sagði, að á síðari tímum hefði líklega engum dottið í hug að velja hóteli á Þingvöllum stað, þar sem Valhöll hefði staðið. Þess vegna teldi ég ólíklegt, að nokkurt mannvirki risi einmitt á þeim stað að nýju. Í því sambandi bæri ekki síst að hafa í huga verndun vatnsins en bæjarstæði Valhallar væri á viðkvæmum stað með tilliti til þess og landsigs. Ef reisa ætti hús fyrir veitingastað og fundi, ætti að gera það á Völlunum fyrir norðan þinghelgina. Hótel ætti hins vegar að rísa að Skógarhólum, þar sem Landsamband hestamannafélaga hefði aðstöðu og hefði ég rætt það mál á sinum tíma við forráðamenn landsambandsins í umboði Þingvallanefndar.

Æ skýrist betur, að þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem ætla að greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu eða sitja hjá eru að lengja líf ríkisstjórnarinnar fyrir utan allt annað. Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu, að ekki yrði sótt um aðild nema með skilyrðum. Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar er tekið fram, að ekki skuli sett nein skilyrði fyrir umsókn. Sjálfstæðismenn samþykktu tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu auk efnislegra skilyrða á landsfundi sínum. Með þeirri samþykkt var bæði tekin ákvörðun um aðferð og efni. Þeir sjálfstæðisþingmenn, sem samþykkja eða veita ESB-máli brautargengi án þessarar aðferðar og efnisþátta fara gegn samþykkt landsfundarins.