28.7.2009

Þriðjudagur, 28. 07. 09

Furðulegt er að heyra opinberan embættismann lýsa yfir því í útvarpsviðtali, að starfsemi varnarmálastofnunar sé skilyrði fyrir aðild Íslands að NATO. Þetta gerði forstjóri stofnunarinnar í morgun. Hvergi segir í samningum Íslands við NATO, að hér skuli starfa varnarmálastofnun. Ef íslensk stjórnvöld vilja eiga önnur samskipti við NATO en pólitísk, ákveða þau hvaða stofnanir koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart bandalaginu.

Hitt er ekki síður undarlegt, að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, skuli tala á þann veg, að loftrýmisgæsla undir merkjum NATO á N-Atlantshafi snerti ekki hagsmuni Íslands og Íslendinga. Að sjálfsögðu skiptir þessi gæsla okkur Íslendinga máli og við eigum að auðvelda hana. Það er hins vegar unnt að gera á viðaminni hátt en með því að reka varnarmálastofnun.

Nýlega var varnarmálastofnun borin fyrir upplýsingum um ferðir rússneskra kafbáta, þar á meðal kjarnorkuknúinna, á Drekasvæðinu, þar sem líklegt er talið, að olía finnist í íslenskri lögsögu. Þess var ekki getið, hvernig stofnunin aflaði þessara upplýsinga. Ástæða er til að velta fyrir sér, hvort samræmist reglum NATO að birta þær opinberlega. Kannski vildi stofnunin réttlæta tilvist sína gagnvart Árna Þór og öðrum vinstri-grænum, sem vilja friðlýsa íslenska lögsögu fyrir ferðum kjarnorkuknúinna skipa?

Allt frá því að utanríkisráðuneytið setti varnarmálastofnun á laggirnar hefur verið brotalöm í starfsemi hennar, enda á utanríkisráðuneytið ekki að standa að slíkri starfsemi, þótt það hafi komið fram fyrir Íslands hönd gagnvart bandaríska varnarliðinu á sínum tíma. Hlutdeild utanríkisráðuneytisins í þessum rekstri er tímaskekkja.