Þriðjudagur, 07. 07. 09.
Af atburðum dagsins í ICESAVE-málinu verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að Samfylkingin undir forystu Össurar Skarphéðinssonar leggi sig fram um að leggja það alfarið á herðar Steingríms J. Sigfússonar og vinstri-grænna að tryggja samþykkt málsins á þingi. Steingrímur J. verði í senn að bera allan þunga vegna ICESAVE og jafnframt sjá til þess, að Samfylkingin geti gengið til viðræðna við Brussel-valdið um aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir tilstuðlan Carls Bildts, utanríkisráðherra þeirra.
Davíð Oddsson sagði í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 5. júlí, að Svíar hefðu sýnt Íslendingum mesta þvermóðsku í lánaviðræðum við Norðurlöndin vegna bankahrunsins. Bildt hefur kannski talið það bestu leiðina til að knýja fram ICESAVE-samningana gagnvart Samfylkingunni, þótt hún láti síðan Steingrím J. um að moka flórinn.
Morgunblaðið sagði frá því í morgun, að bresk lögfræðistofa Mishcon de Reya í London hefði samið greinargerð um ICESAVE-málið fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Þar kæmi fram, að lögfræðingarnir hefðu „hvorki fundið neina skriflega staðfestingu þess að Ísland hafi formlega undirgengist að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda, hvað varðar Icesave-innstæðurnar, né undirgengist aðrar skuldbindingar en þær sem felast í tilskipuninni eins og hún var innleidd í lögum 98/1999.“
Forsíða greinargerðarinnar er þessi:
ICESAVE
- ISSUES AND SOLUTIONS -
CONFIDIENDTIAL BRIEFING PAPER FOR
OSSUR SKARPHEDINSSON
ICELANDIC FOREIGN MINSTER
29 MARCH 2009
„Ég hef ekki beðið það um neina vinnu fyrir mig eða utanríkisráðuneytið og kannast ekki við það,” sagði Össur, þegar hann var spurður um þessa greinargerð og vísaði á fjármálaráðuneytið, sem sendi frá sér fréttatilkynningu, þar sem sagði:
„Í lok mars fór utanríkisráðherra Íslands til London til fundar við David Miliband utanríkisráðherra Bretlands. Meðan á þeirri heimsókn stóð hitti hann m.a. fulltrúa frá Mischon de Reya. Lögmannstofan sendi fjármálaráðuneytinu minnisblað vegna Icesave málsins í tölvupósti. Í því má m.a. finna hugmyndir stofunnar um útvíkkun þess verkefnis sem unnið var með samninganefndinni. Í niðurlagi minnisblaðsins kemur fram að það sé ófullgert og geti tekið breytingum við frekari yfirferð gagna. Af þeim sökum var minnisblaði lögmannsstofunnar hvorki sent til utanríkisráðuneytis né einstakra nefndarmanna.“
Niðurlagsorð greinargerðarinnar, sem fjármálaráðuneytið notar til að afsaka, að skjalið var ekki kynnt, fyrr en eftir að Morgunblaðið hafði sagt frá þvi, snúast um nauðsyn þess að aflað sér frekari gagna en snerta ekki hina lögfræðilegu niðurstöðu. Hún er skýr.
Fréttatilkynningin gefur enn og aftur til kynna, að fjármálaráðuneytið gefur ekki frekar en Össur Skarphéðinsson neitt fyrir hin lögfræðilegu sjónarmið. Eftir samtal við lögfræðingana fyrir fund sinn með breska utanríkisráðherranum hefur Össur greinilega ekki kært sig um að halda til haga ábendingum þeirra um lögfræðileg rök gegn málflutningi Breta.
Þessi atburðarás í dag vegna greinargerðar, sem samin er fyrir Össur Skarphéðinsson en hann neitar að hafa séð og kastar í fangið á Steingrími J. er aðeins enn eitt dæmið um, hvernig Össur og Samfylkingin heldur sig til hlés í ICESAVE-málinu og beinir allri athygli að Steingrími J.