6.7.2009

Mánudagur, 06. 07. 09.

Þegar ég renni yfir blöð og kynni mér, hvað borið hefur hæst í umræðum í fjarveru minni í rúma viku, sé ég, að ekkert hefur miðað hjá ríkisstjórninni í glímu hennar við stóru málin og þó sérstaklega í ICESAVE-málinu. Augljóst er, að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður vinstri-grænna, hefur ákveðið að binda sig við siglutréð og sökkva með stjórnarskútunni. Ég vona, að það óhappafley sökkvi, áður en ríkisstjórninni tekst að granda sjálfri þjóðarskútunni. Fari fram sem horfir bendir allt til kafsiglingar hennar undir forystu Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sorglegt er að lesa í leiðara Morgunblaðsins, að ritstjórinn hefur mótað sér þá stefnu að styðja ICESAVE, þótt sú þverstæða sé kynnt í leiðaranum, að ekki séu öll kurl enn komin til grafar í málinu. Sagt er, að blaðið hafi mótað sér stefnu í málinu í Reykjavíkurbréfi 14. júní og hún sé svo fastmótuð, að við henni verði ekki haggað, hvað sem á dynur. Augljóst er, að stuðningur blaðsins við ICESAVE byggist á stefnu þess um aðild að Evrópusambandinu.

Sigríður Jónsdóttir, bóndi í Arnarholti, líkti ESB-aðildarþörfinni við fíkn í sjónvarpsþættinum Út og suður, sem var endurtekinn í dag. Þetta er góð líking, þegar til þess er litið, að aðildarsinnar blása á allt, sem ætti að vekja þá til umhugsunar um réttmæti stefnu sinnar og hvað hún kostar þjóðina.