26.7.2009

Sunnudagur, 26. 07. 09.

Í pistli hér á síðunni í dag kemst ég að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórnin hafi með stuðningi meirihluta alþingis tekið ranga ESB-ákvörðun á röngum tíma. Þetta ber ekki mikilli stjórnvisku vitni, enda réð einþykkni Jóhönnu og óðagot Össurar ferðinni. 

Í dag lýsti Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, yfir andstöðu við stefnu forsætisráðherra og utanríkisráðherra í málinu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera ósammála Jóni Bjarnasyni og ráðherra, sem sé ekki tilbúinn til að framfylgja samþykktum Alþingis beri að víkja úr ríkisstjórn. Ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að verða við þessari kröfu Sigríðar Ingibjargar og víkja Jóni úr ríkisstjórninni? Ætlar Sigríður Ingibjörg að fylgja orðum sínum eftir með því að flytja tillögu um vantraust á Jón?

Sama dag og Jón Bjarnason snerist opinberlega gegn höfuðmáli Jóhönnu og Össurar birti Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, gagnrýni á stefnu Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu á vefsíðu sinni. Ögmundur hafnar þeirri kenningu forystumanna ríkisstjórnarinnar, að tafarlaust samþykki á Icesave-afarkostunum sé forsenda þess, að Íslendingar brjótist úr alþjóðlegri einangrun. Hann telur að berjast eigi fyrir sanngjörnum málstað Íslendinga á alþjóðavettvangi og segir:

„Það er koma fólki í skilning um að þegar á reynir virka réttarkerfin ekki heldur hnefaréttur hins sterka. Farvegur Icesave deilunnar er óræk sönnun þessa. Þegar allt kemur til alls er almenningi umhugað um að verja grundvallarforsendur lýðræðislegs réttarríkis. Þegar okkur tekst að færa sönnur á að okkur er meinaður aðgangur að réttarkerfunum og í stað þess beitt hnefaréttinum; að við viljum standa við lögformlegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar; að við viljum borga þær skuldir sem okkur ber að greiða, að við viljum endurheimta stolna fjármuni og láta þá alla renna til þeirra sem hafa verið hlunnfarnir; að við virðum skilmála sem við höfum undirgengist, þá mun okkar land rísa á ný.“

RÚV kallaði ekki í neinn þingmann Samfylkingarinnar vegna þessara orða Ögmundar Jónassonar, enda virðisti þeim sama, þótt meginmál Steingríms J. sæti gagnrýni. Hinir skulu hins vegar víkja, sem leyfa sér að lýsa efasemdum um ESB-stefnuna.