Fimmtudagur, 23. 07. 09.
Össur Skarphéðinsson afhenti Carl Bildt í dag umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Var það í annað sinn, sem Svíum var afhent umsóknin. Af sjónvarpsmyndum mátti ráða, að ekki hefði verið mikil reisn yfir athöfninni.
Fjármálaráðuneytið unir því, að Norræni fjárfestingabankinn hætti að lána Íslendingum, nema alþingi fallist á Icesave-afarkostina. Miðað við þvermóðsku Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu, kemur þetta ekki á óvart.
Lögfræðirökin gegn Icesave-samningunum verða sífellt þyngri. Þá færa hagfræðingar sterk rök fyrir því, að áætlun Seðlabanka Íslands um, að Íslendingar geti borið Icesave-byrðarnar standist ekki. Ríkisstjórnin fellur frá kröfu um tafarlausa afgreiðslu alþingis á Icesave-málinu.
Í dag birti Fréttablaðið grein eftir mig, þar sem ég andmæli Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, vegna ummæla hans í leiðara um löggæslumál og fjárveitingar til þeirra í ráðherratíð minni.
Á ruv.is segir í dag af þessu tilefni:
„Landssamband lögreglumanna tekur undir gagnrýni Björns Bjarnasonar fyrrverandi dómsmálaráðherra um óeðlilegt hlutfall yfirmanna og undirmanna innan lögreglunnar. Þetta endurspeglast meðal annars í því að endurnýjun í grunnlöggæslu hefur ekki verið nægileg.
Í grein í Fréttablaðinu í dag sver Björn Bjarnasona, fyrrverandi dómsmálaráðherra, af sér sakir þess efnis að hafa fjársvelt Lögregluna árum saman. Hann bendir hins vegar á hluti sem betur mættu fara eins og hlutfall yfirmanna og undirmanna innan Lögreglunnar. Markmið sameiningar lögregluembættanna árið 2007 um að fækka stöðum yfirmanna hefur ekki gengið eftir.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands Lögreglumanna, segir að félagsmenn hafi sumir hverjir gagnrýnt að hlutfall yfirmanna sé of hátt. Hann segir hinsvegar að uppbygging lögreglunnar sé flókin þar sem lögreglan er byggð upp í lagskiptu umhverfi, svipað og hjá her.
Snorri segir það vonbrigði að sameining embætta hafi ekki skilað sér í fækkun yfirmanna eins og til stóð.“