Mánudagur, 27. 07. 09.
Utanríkisráðherrar ESB samþykktu í dag, að vísa aðildarumsókn Íslands til framkvæmdastjórnar ESB. Hún gefur ráðherrunum álit sitt á umsókninni. Ákveðið var að skoða umsókn Albaníu á næsta fundi ráðherranna, enda væri stjórnarkreppa í landinu. Ef ráðherrarnir hefðu skotið ákvörðun um Ísland á frest hefði landið verið sett á bekk með Albaníu og Makedóníu. Grikkir standa gegn Makedóníu vegna nafnsins á landinu.
Össur Skarphéðinsson kallar það „diplómatískan sigur“, að Íslendingum var ekki skipað á þennan biðbekk.
Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, segir flokksbróður sínum Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að halda sér á mottunni í andstöðu við ESB-umsóknina. Alþingi hafi samþykkt hana og hann verði að hlíta því. Tónninn í Árna Þór hefur breyst, frá því að hann lét eins og leitast yrði við að sætta sjónarmið og hafa sem víðtækast samráð.
Þetta tvennt: Grobb Össurar og krafa um undirgefni vinstri-grænna vegna samþykktar alþingis verður ESB-stef stjórnarliðsins næstu vikur og mánuði.
Hvernig halda menn, að rætt verði um væntanlega niðurstöðu í Brussel-viðræðunum? Ákallið um að kyngja Icesave-samningunum, þrátt fyrir gallana á þeim, er hjáróma miðað við kröfuna um að samþykkja aðildarsamninginn, þegar þar að kemur.
Nú hrópa þingmenn Samfylkingarinnar á sjálfstæðismenn vegna Icesave og segjast tala í nafni „atvinnulífsins“, sem vilji, að afarkostirnir séu samþykktir. Þetta minnir aðeins á hróp Samfylkingarinnar í þágu Baugs og Kaupþings á sínum tíma.
Spyrja má: Hver er reisn íslensks „atvinnulífs“? Á það ekki betri málsvara en þá, sem telja þjóðina komast á vonarvöl, nema hún leggist í duftið gagnvart erlendu valdi í hvaða mynd, sem það birtist? Eru þeir menn enn með tögl og hagldir innan „atvinnulífsins“, sem ýttu undir útrásina á sínum tíma og lögðu blessun sína yfir allt, sem gert var í hennar nafni?