1.2.1998 0:00

Sunnudagur 1.2.1998

Síðustu viku velti ég því oftar en einu sinni fyrir mér, hvað ylli því, að svo margir viðburðir gerðust einmitt í henni. Tvö leikrit voru frumsýnd, ópera og ballett í Reykjavík, margar listsýningar voru opnaðar, viðurkenningar veittar, formlega gengið frá mikilvægum samningum á sviði rannsókna og vísinda auk þess sem ný Tölvorðabók sá dagsins ljós og Rannsóknarráð Íslands opnaði nýtt gagnasafn á netinu. Lítum nánar á vikuna: Klukkan 20.30 fór ég á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur og Hamrahlíðarskólakóranna í Langholtskirkju, þar sem flutt var tónlist eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt, sem nú er búsettur í Berlín og kom þaðan til að vera við tónleikanna. Ég hafði fylgst náið með öllum og miklum undirbúningi þessara tónleika enda er Rut kona mín formaður Kammersveitarinnar og var einleikari og konsertmeistari á tónleikunum. Lék lengi vafi á því, hvort Pärt kæmi en dag einn hringdi hann í Rut og sagðist mundu hætta við að fara til London og koma hingað í staðinn en með því skilyrði þó, að hann þyrfti ekki að tala við fjölmiðla. Var Pärt síðan hér frá föstudeginum 30. janúar til mánudagsmorgunins 2. febrúar. Ljóst var, að áhuginn á tónleikunum yrði svo mikill, að forsendur væru fyrir að hafa þá tvenna. Varð að ráði að efna til seinni tónleikanna kl. 23 þetta sama sunnudagskvöld. Pärt er einkar hógvær og geðþekkur maður og má fullyrða að návist hans á tónleikunum hafi stuðlað að því að gera stundina betri en ella. Átti hann greinilega hug og hjörtu hins mikla skara ungs fólks í Hamrahlíðarkórunum, sem Þorgerður Ingólfsdóttir hafði þjálfað af sínum alkunna dugnaði og listfengi. Sagði hún við kórfélaga, að fyrir þá að hitta Pärt væri álíka og hún hefði haft tækifæri til að hitta Stravinsky á Íslandi á menntaskólaárum sínum. Hughrifin af tónlistinni voru mikil og mér er sagt, að þau hafi þó verið enn meiri á seinni tónleikunum en hinum fyrri, þegar kórinn gaf allt sem hann átti í Te Deum. Björk er meðal aðdáanda Pärt og mun hún hafa hætt við að fara til London þetta sunnudagskvöld til að fá tækifæri til að hlusta á tónleikana. Minnist ég þess ekki, að jafnmargir hafi komið til Rutar á mannamótum til að lýsa ánægju sinni með tónleika og þessa og lýsa áhrifunum, sem tónlistin hafði á þá.