7.2.1998 0:00

Laugardagur 7.2.1998

Klukkan 14 fórum á Háskólahátíð í Háskólabíói og þáðum kaffi í boði rektors að athöfninni lokinni, er það góð nýbreytni og gefur mönnum færi á að hittast á annan hátt en þann að ganga saman í prósessíu inn og út úr salnum. Eftir hátíðina fórum við í Gerðarsafn, þar sem Baltazar var að opna mikla sýningu í öllum sölum hússins. Er undarlegur norna-óhugnaður í sumum málverkanna, en þau eru alls 32. Þaðan fórum við í Hafnarborg þar sem Björg Þorsteinsdóttir var að opna sýningu á vatnslitamyndum og Kristján Jónsson var einnig að opna sýningu á málverkum sínum, sem tengjast meðal annars húsum í Reykjavík með sérkennilegum og skemmtilegum hætti. Klukkan 20 fórum við í Borgarleikhúsið til að vera við frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum, sem minntist jafnframt 25 ára afmælis síns. Þrjú verk voru á dagskránni. Hið fyrsta við tónlist eftir Arvo Pärt og hafði Rut einmitt farið með Pärt á æfingu hjá dansflokknum og hann séð verkið í fyrsta sinn sér til gleði. Danshöfundurinn Ed Wubbe var við frumsýninguna í Borgarleikhúsinu og var hann undrandi og glaður yfir því,. að Pärt hefði fyrst fengið tækifæri hér til að sjá verk sitt. Þegar ég tók við sem menntamálaráðherra var mikil óvissa um framtíð Íslenska dansflokksins. Hann var í skipulagslegri, fjárhagslegri og húsnæðislegri kreppu. Ný stjórn sem ég setti yfir flokkinn hefur unnið þrekvirki á tveimur árum. Magnús Árni Skúlason framkvæmdastjóri hefur siglt skipinu af öryggi frá degi til dags, en hann hefur nú sagt starfi sínu lausu og hefur verið auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra. Skipulagið er í réttri þróun. Fjárhagslega hefur verið tekið til hendi. Dansflokkurinn hefur fengið samstað í Borgarleikhúsinu. Síðast en ekki síst hefur verið mótuð ný listræn stefna undir forystu Katrínar Hall og skilaði hún sér vel í sýningunni á laugardag. Frumsýningarkvöldið gekk ekki áfallalaust að þessu sinni frekar en kvöldið áður, því að ekki var unnt að draga upp tjaldið eftir hlé vegna bilunar í tölvu - gekk það erfiðlega í upphafi sýningarinnar en alls ekki eftir hlé. Voru áhorfendur sendir úr salnum eftir að þeir höfðu sest að loknu hléi og beðið það í um 20 mínútur. Gengu menn þá til þess verks að fella tjaldið í orðsins fyllstu merkingu og var salurinn opnaður að nýju, eftir að tjaldið hafði verið fjarlægt. Var hléð um klukkustund á þessari sýningu, ívið lengra en kvöldið áður.