4.2.1998 0:00

Miðvikudagur 4.2.1998

Klukkan 13.15 flutti ég ræðu á fundi á vegum Samtaka iðnaðarins um menntamál. Á Alþingi svaraði ég fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um fjöldatakmarkanir í læknadeild Háskóla Íslands. Klukkan 17 tók ég þátt í hátíðlegri athöfn á vegum Skýrslutæknifélags Íslands vegna útgáfu á Tölvuorðasafni. Er þetta fjórða útgáfa orðasafnsins, hin veglegasta bók. Verður það ekki fullþakkað, að menn skuli leggja jafn hart að sér og gert hefur verið við þessa miklu vinnu að þýða tækniorð og hugtök á íslensku. Í ræðum manna við athöfnina kom fram eindreginn vilji til að beita sér fyrir því, að stýrikerfi í tölvum verði íslenskað. Miklar umræður hafa farið fram um þetta mál á netinu undanfarið. Klukkan 20 fórum við í Borgarleikhúsið, en þar var á Litla sviðinu frumsýnt leikrit eftir Nicky Silver, Feitir menn í pilsum. Hafi það verið ætlun höfundarins að ganga fram af áhorfendum tókst það gagnvart okkur.