7.7.2007 18:24

Laugardagur, 07. 07. 07.

Í Staksteinum í dag segir ritstjóri Morgunblaðsins: „Raunar eru nokkrar vikur liðnar frá því að dómarinn (Hrafn Bragason hæstaréttardómari innsk. mitt) baðst lausnar en það reyndist ómögulegt fyrir Morgunblaðið að fá það staðfest fyrir nokkru. Af hverju er það svona mikið leyndarmál að dómari við Hæstarétti (svo!) segi af sér? Af hverju þarf að fara í felur með það í nokkrar vikur?“

Embætti hæstaréttardómara er eitt af fáum embættum, sem veitt eru af forseta Íslands að tillögu ráðherra og veitir forseti hæstaréttardómurum einnig lausn að tillögu ráðherra. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er ekki greint frá tillögu til forseta, fyrr en um hana hefur verið fjallað í ríkisstjórn, en allar tillögur til forseta Íslands skal bera upp í ríkisstjórn, áður en þær eru lagðar fyrir forseta. Ég kynnti tillögu mína um lausn fyrir Hrafn Bragason í ríkisstjórn 3. júlí sl. og eftir það staðfesti ráðuneytið að sjálfsögðu tilvist hennar.

Dómara er að sjálfsögðu heimilt án afskipta ráðuneytisins að skýra frá því, hvort hann hyggst starfa lengur eða skemur í réttinum.

Vangaveltur höfundar Staksteina vekja þá spurningu, hvort í raun skipti máli, að skýrt sé frá því deginum fyrr eða síðar, að dómari láti af störfum í hæstarétti fyrir aldurs sakir.

Rétt er að geta þess, að embætti hæstaréttardómara verður auglýst laust til umsóknar innan tíðar, en Hrafn Bragason lætur af störfum hinn 1. september.