4.7.2007 21:00

Miðvikudagur, 04. 07. 07.

Gordon Brown svaraði í fyrsta sinn í dag spurningum sem forsætisráðherra í neðri deild breska þingsins. Sky News fjallar ítarlega um fyrirspurnatímann og kallar til fólk til að gefa leiðtogum flokkanna einkunnir. Blaðamenn töldu David Cameron, leiðtoga íhaldsmanna, koma best frá umræðunum.

Brown svaraði meðal annars á þann veg, að hann hefði aðeins verið forsætisráðherra í fimm daga. Þótti álitsgjöfum ekki mikið til þess koma, að forsætisráðherra skyti sér undan að svara á þennan hátt.

Ég hef stundum verið sakaður um að svara ekki, þótt ég telji mig hafa svarað, af því að fyrirspyrjandinn vildi fá annað svar en ég gaf. Mér sýnist blaðamaður Blaðsins þessarar skoðunar í dag. Hann segir mig ekki hafa svarað spurningum, sem hann sendi mér, af því að ég svaraði þeim ekki á þann veg, sem hann vildi - í tölvubréfinu tók hann meðal annars fram, að ég ætti að svara hverri spurningu fyrir sig! Ég sakna þess, að hann birti ekki spurningar sínar, svo að lesendur Blaðsins geti lesið þær og metið hvers vegna ég svaraði á þann veg, sem ég gerði.