11.7.2007 22:24

Miðvikudagur, 11. 07. 07.

Í Danmörku er nú rætt um að heimila einkarekna háskóla, það er að ríkið fari sömu leið og farin hefur verið hér, að greiða ákveðna fjárhæð með nemanda samkvæmt reiknireglu, hvort sem ríkið rekur háskólann eða einkaaðili.

Útfærslan virðist vefjast fyrir Dönum, af því að þeir þora ekki að ræða greiðslu skólagjalda til einkareknu háskólanna. Þess í stað er látið í veðri vaka, að Harvard og Oxford muni stofna háskóladeildir í samvinnu við einkaaðila í Danmörku. Berlingske Tidende hafði samband við talsmenn þessara skóla og töldu þeir af og frá, að þeir mundu hefja starfsemi í Danmörku.

Danir virðast ekki hafa frétt af því, hve háskólastarfsemi hefur blómstrað hér á landi, eftir að einkarekstur háskóla var heimilaður - og hér reyndist það síður en svo hindrun fyrir einkareknu skólanna að mega innheimta skólagjöld. Kannski mun sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn skrifa einhverju dönsku blaðanna og segja Dönum frá góðri reynslu okkar Íslendinga af einkaframtaki í háskólastarfi?

Sendiherrann gæti þá einnig upplýst Dani um, að vöxtur í háskólastarfi og háskólamenntun hér hafi auðveldað fjármálafyrirtækjum að ráða menntað starfsfólk - og þar með styrkt þau í sókn sinni í Danmörku og annars staðar.