15.7.2007 11:31

Sunnudagur, 15. 07. 07.

Einar Oddur Kristjánsson, góður samþingmaður og flokksbróðir, er fallinn frá fyrir aldur fram. Það verður skarð fyrir skildi í þingflokki okkar sjálfstæðismanna. Við munum sakna öflugs málsvara og skemmtilegs félaga. Blessuð sé minning Einars Odds.

Vorum klukkan 14.00 í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem fagnað var 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Sr. Kristinn Jens Sigurþórsson í Saurbæ var prestur við athöfnina en sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, prédikaði. Að lokinn messu var boðið í kaffi á Hótel Glym.

Spuninn út af færslu minni hér á síðuna síðdegis hinn 12. júlí tekur á sig ýmsar myndir. Í spunadálki Fréttablaðsins í dag segir bjorgvin@frettabladid.is:

„Margir pirrast út í tilraunir um hraðleið í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli. Telja þetta forréttindi. Hafa ber þó í huga að oft fara þarna í gegn menn og konur sem þurfa vinnu sinnar vegna að fljúga til útlanda fjórum sinnum í mánuði. Lítill sjarmi yfir því. Þeir sem hneykslast á þessu hljóta líka að vera ósammála því að fólk borgi sig fram fyrir röð í heilbrigðiskerfinu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Björn Bjarnason hafa talað fyrir, þótt það gagnist bæði þeim sem bíða og þeim sem fara fram fyrir og greiða fyrir þá þjónustu. Það sama ætti að ganga yfir alla á þeim vettvangi eins í öðrum.“

Ef fimm til tíu mínútur til eða frá leggjast svona þungt á þá, sem þurfa að fara fjórum sinnum í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli í mánuði, má spyrja, hvort ferðin í heild sé ekki óbærileg. Að bera umræður um tilvik af þessu tagi saman við hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, er í besta falli broslegt. Hvers vegna skyldi höfundurinn ekki taka fram, að skoðanir mínar um jafnræði í opinberri þjónustu í stað ívilnana séu fráleitar, af því að ég beitti mér fyrir einkarekstri á háskólastiginu?