30.7.2007 20:41

Mánudagur, 30. 07. 07.

Utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór nýlega í heimsókn til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og kunnugt er. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um deilur á þessu ófriðar- og óróasvæði af eigin raun og leggja friðarlóð á vogarskálar. Of snemmt er að segja nokkuð um árangur ferðarinnar, enda er nauðsynlegt að undirbúa hvert skref, sem stigið er til lausnar á þessum langvinnu deilum af kostgæfni.

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, sem um margra ára skeið hefur látið sig málefni Palestínumanna varða, minnti á það í tilefni af ferð Ingibjargar Sólrúnar, að Norðmenn hefðu ekki tekið til við friðarumleitanir milli Ísraela og Palestínumanna, fyrr en þeir höfðu rannsakað deilumálin gaumgæfilega og haldið úti sérstakri stofnun í þeim tilgangi. Þrátt fyrir Óslóar-samkomulagið svonefnda og framlag Norðmanna er enn hart deilt á þessum slóðum.

Hvað sem líður friðarhorfum fyrir botni Miðjarðarhafs eftir för utanríkisráðherra þangað, er ljóst, að ferðalagið hefur valdið alvarlegum deilum um afstöðuna til Palestínumanna meðal jafnaðarmanna og sósíalista hér á landi. Hafa deilur málsvara Fatah-hreyfingarinnar, sem stjórnar á Vesturbakkanum, og Hamas-samtakanna, sem stjórnar Gaza-spildunni, sett svip sinn á stjórnmálaumræður hér eftir heimkomu utanríkisráðherra.

Í Morgunblaðinu í dag má sjá tvær greinar um málið, eins og hér verður rakið.

Björgvin Guðmundsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi Alþýðuflokksins, hefur ritað óteljandi nöldurgreinar í blöð undanfarin misseri og háð neikvætt áróðursstríð fyrir hönd Samfylkingarinnar. Í Morgunblaðinu í dag bregður svo við, að Björgvin slær nýjan og jákvæðan tón. Hann fagnar því innilega, að Ingibjörg Sólrún skuli hafa farið til Mið-Austurlanda.

Björgvin er þó ekki ánægður með allt, sem sagt hefur verið í tilefni af för Ingibjargar Sólrúnar. Hann telur gagnrýni á utanríkisráðherra fyrir að vilja ekki hitta fulltrúa Hamas óréttmæta. Björgvin segir meðal annars:

„Hún [Ingibjörg Sólrún] gerði sér far um að kynnast sjónarmiðum beggja aðila en hún blandaði sér ekki í innbyrðis deilur Palestínuaraba. Hamas hafa með vopnavaldi náð yfirráðum á Gaza. Það var því útilokað, að utanríkisráðherra Íslands ræddi við þau samtök. Ég tel, að hún hafi haldið rétt á málum í því efni. Ögmundur Jónasson telur, að Ingibjörg Sólrún sé að þóknast Bandaríkjamönnum og Ísraelsmönnum með því að ræða ekki við Hamas-samtökin. Það tel ég ekki vera.“

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag um för Ingibjargar Sólrúnar og segir meðal annars:

„Jafnframt vekur það furðu, að formaður í norrænum jafnaðarflokki [Ingibjörg Sólrún], utanríkisráðherra Íslands, skuli lýsa yfir því að ekki komi til mála að ræða við fulltrúa Hamas-samtakanna, og því er borið við að þau beri ábyrgð á hryðjuverkum. Hvað er eiginlega átt við? Þýðir þessi afstaða að það sé skoðun ráðherrans og ráðgjafa hennar að aðrir aðilar deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafs hafi ekki stundað hryðjuverk?“

Að friðsamleg för utanríkisráðherra Íslands til Mið-Austurlanda skuli breytast í pólitísk átök meðal jafnaðarmanna og sósíalista hér á landi um afstöðuna til valdamanna meðal Palestínumanna, sýnir aðeins, hve miklu skiptir að huga vel að hverju skrefi, sem stigið er, þótt friður sé hafður að leiðarljósi.