1.7.2007 21:00

Sunnudagur, 01. 07. 07.

Ókum úr Skálholti um 16.30, eftir að Rut hafði leikið þar Haydn og Schubert með Skálholtskvartettinum. Heimferðin gekk snurðulaust og var undarlegt að heyra látið að því liggja í fréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 að umferðin austur fyrir fjall væri óvenjulegri en almennt um helgar eða raðir eða tafir væru þar.

Fréttirnar um hættuástandið í Bretlandi vegna hryðjuverka eða tilrauna til þeirra minna enn á, að öryggisgæsla í þágu þjóða snýr nú að nánasta umhverfi hins almenna borgara og er höndum lögreglu í samvinnu við öryggis- og greiningarstofnanir.

Starfshættir hryðjuverkamanna eru spegilmynd af því, sem tíðkast hjá þeim, sem stunda skipulagða glæpastarfsemi. Markmið hryðjuverkamannanna er að drepa sem flesta almenna borgara með sprengjum sínum, markmið fíkniefnasala er að lokka sem flesta í lífshættulegt net sitt til að hafa af þeim sem mest fé og lífið, ef svo ber undir. Leiðin að markmiðinu felst í því að skipuleggja leynilega hópa, sem eru ekki svo nátengdir, að náist einn, geti aðrir haldið áfram, án þess að höfuðpaurinn finnist. Innan hópanna ríkir nægileg ógn til þess, að enginn þorir að gerast uppljóstrari og segja lögreglu sannleikann.