24.7.2007 18:40

Þriðjudagur 24. 07. 07.

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, vill, að lög um heimild til sólarhringssölu á áfengi á veitingastöðum verði endurskoðuð. Afbrotatölfræði sýnir fjölgun ofbeldisbrota og hvers kyns óknytta á tímanum 03.00 til 06.00 á þeim 12 mánuðum, sem lögin hafa gilt.

Rannsókn á St. Thomas' sjúkrahúsinu í London sýnir, að heimsóknir vegna áfengisneyslu á slysa- og bráðadeild sjúkrahússins hafa þrefaldast síðan lögin tóku gildi.

William Hague, málsvari breska Íhaldsflokksins, sækir nú hart að Brown og ríkisstjórn hans með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna breytinga á sáttmálum Evrópusambandsins. Öll helstu dagblöð í Bretlandi krefjast einnig þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin verst með þeim rökum, að ekki sé verið að setja Evrópusambandinu stjórnarskrá og þess vegna þurfi ekki að bera nýja sáttmála undir þjóðina.