28.7.2007 21:28

Laugardagur, 28. 07. 07.

Blaðið skýrði frá því, að fastaráð NATO hefði fimmtudaginn 26. júlí samþykkt áætlun um lofthelgisgæslu (Air Policing) við Ísland og ættu orrustuþotur frá NATO-ríkjum að koma hingað fjórum sinnum á ári til að sinna eftirlitinu með æfingum. Þá ætti að nýta tækjakost ratsjárstofnunar í þágu eftirlitsins.

Air Policing eða lofthelgisgæslu má jafna við landhelgisgæslu. NATO skilgreinir starfsemina á þennan veg: „The use of interceptor aircraft, in peacetime, for the purpose of preserving the integrity of a specified airspace.“Lofthelgiseftirlitið er stundað með orrustuþotum, enda eru aðrar flugvélar ekki búnar til valdbeitingar í háloftunum. Lofthelgisgæsla lýtur samkvæmt skilgreiningu að innra öryggi ríkja og líkist löggæslu eins og orðið policing gefur til kynna.

Lögregla ræður hvergi yfir orrustuþotum og það er ekki fyrr en hin síðari ár, sem til slíkra tækja er litið í því skyni að tryggja innra öryggi.

Öfgafullri og ótrúverðugri beitingu orrustuþotu í þágu innra öryggis má kynnast í kvikmyndinni Die Hard 04.

ps. athygli mín hefur verið vakin á því, að hljóðvarp ríkisins flutti frétt um þetta föstudaginn 27. júlí.