8.7.2007 15:14

Sunnudagur, 08. 07. 07.

Mér finnst miður að hafa gert of mikið úr andstöðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, við frumvarp um breytingar á fjarskiptalögunum vorið 2005, þegar rætt var um geymslu á IP-tölum og aðgang lögreglu að slíkum tölum og leyninúmerum án dómsúrskurðar. Ágúst Ólafur var að sjálfsögðu á móti þessum lagabreytingum en ekki „fremstur í flokki“ andstæðinga eins og ég sagði ranglega í grein í Morgunblaðinu  5. júlí. Ágúst Ólafur finnur réttilega að þessari fullyrðingu minni í grein í Morgunblaðinu í dag. Bið ég hann afsökunar á því, að hafa gert of mikið úr hans hlut.

Í grein sinni rifjar Ágúst Ólafur upp þau mál, þar sem hann telur sig hafa verið fremstan eða framarlega í flokki andstöðumanna og nefnir 24-regluna, sem hefur auðveldað útlendingastofnun störf hennar, og greiningardeild lögreglunnar, sem hefur sannað gildi sitt, frá því að hún hóf störf 1. janúar sl. Skelegg barátta Ágústs Ólafs gegn tillögum mínum um þetta efni og ýmislegt fleira leiddi til þeirra mistaka, sem ég hef leiðrétt hér að ofan.

Í tilefni af 25 ára afmæli laga um persónuvernd gaf Persónuvernd út rit með greinum nokkurra höfunda og er Ágúst Ólafur meðal þeirra. Þar fullyrðir hann, að greiningardeildin rannsaki afbrot „áður en þau eru framin með svokölluðu áhættumati og forvarnarvinnu.“ Segir hann, að litlar upplýsingar hafi fengist um það á alþingi eftir hvaða aðferðafræði greiningardeildin mundi starfa, hvaða heimildir hún hafi eða hverjir séu erlendir starfsbræður hennar.

Vissulega væri mikils virði, ef lögregla gæti rannsakað afbrot „áður en þau eru framin.“ Greiningardeildin getur það ekki en hún greinir upplýsingar, sem henni berast eða hún aflar sér á grundvelli lögheimilda, sem er að finna í lögum um meðferð opinberra mála, dregur af þeim ályktanir og leggur á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir í samræmi við hættumat. Hún er einskonar kortagerðarmaður fyrir lögreglumenn eða aðra, sem vinna að því að tryggja öryggi borgaranna. Hún er sérhæfð deild innan lögreglu með þetta hlutverk. Til að styrkja hin erlendu tengsl starfar nú íslenskur tengslafulltrúi hjá Europol í Haag, samstarf lögregluyfirvalda á Norðurlöndum er mikið og í nýju samkomulagi við Bandaríkjamenn um fyrirkomulag varna landsins er lögð sérstök áhersla á samvinnu lögregluyfirvalda landanna.