22.7.2007 18:55

Sunnudagur, 22. 07. 07.

Þessi frétt birtist á mbl.is síðdegis í dag:

Aðgerðasinnar úr röðum Saving Iceland létu til skarar skríða í miðborg Reykjavíkur í dag er þeir klifruðu upp á Ráðhús Reykjavíkur og hengdu þar upp borða með áletruninni „Vopnaveita Reykjavíkur?“.“

Feitletrunin er mín en ég minnist ekki að hafa séð orðin áður. Hver er munur á aðgerðasinna og mótmælenda? Hvers vegna er þetta nýyrði notað um þetta fólk? Að ósk þess? Hvað í ósköpunum er Vopnaveita Reykjavíkur?
ps. Glöggur lesandi benti mér á, að orðið aðgerðasinni, hefði verið notað í Staksteinum Morgunblaðsins  26. júlí 2006 en þar stóð meðal annars:
 

„Aðgerðasinnar, eða aktífistar eins og þeir kallast á útlendum málum, hafa gjarnan frekar verið tengdir við vinstri vænginn í pólitík en hægri vænginn. Skilgreiningin á aðgerðasinna er dálítið teygjanleg, en gjarnan er átt við þann, sem telur það ekki duga að skrifa í blöðin eða veifa mótmælaskilti til að koma skoðunum sínum á framfæri, heldur verði bein aðgerð að koma til; að brenna fána, fara úr fötunum, leggjast fyrir jarðýtu eða eitthvað því um líkt.

Og eins og áður sagði hefur þessi tegund pólitískrar baráttu fremur verið praktíseruð á vinstri vængnum. Kunnugir komu t.d. ekki auga á marga nafnkunna kjósendur Sjálfstæðisflokksins í mótmælasetunni, þar sem virkjanaandstæðingar lokuðu veginum við Arnarfell fyrr í vikunni.

Í gær varð hins vegar breyting á. Ungir sjálfstæðismenn gripu til beinna aðgerða á skrifstofu skattstjórans í Reykjavík og hindruðu aðgang annarra að opinberum skattskrám, sem þar lágu frammi, lögum samkvæmt. “