10.7.2007 19:18

Þriðjudagur, 10. 07. 07.

Þegar ég kom út af fundi ríkisstjórnarinnar í morgun sat fréttamaður Stöðvar 2 fyrir mér á stéttinni fyrir framan Stjórnarráðshúsið og vildi vita, hvort ég hefði setið í bakherbergjum með Valgerði Sverrisdóttur og talað illa um Baugsfólkið vegna Baugsmálsins. Ég sagði svo ekki vera, ég hefði enga slíka fundi átt með Valgerði og ekki rætt um þetta fólk við hana.

Fyrirsátin var veitt af Stöð 2 vegna viðtals við Valgerði í Viðskiptablaðinu föstudaginn 6. júlí, þar sem hún ræddi á óljósan hátt um sjálfstæðismenn og Baugsmálið og mátti skilja orð hennar á þann veg, að hún byggi yfir einhverjum upplýsingum, án þess að segja frá þeim. Ég er engu nær en aðrir um það, hvað býr að baki orðum Valgerðar.

Síðdegis mánudaginn 9. júlí vakti visir.is athygli á orðum Valgerðar, síðan sneri visir.is sér til Hreins Loftssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Baugs. Stöð 2  gerði þetta að fréttaefni að kvöldi 9. júlí og eftir fréttirnar komu helstu verjendur Baugsmanna, Gestur Jónsson og Jakob R. Möller, í Ísland í dag á Stöð 2 til að ræða hina hálfkveðnu vísu Valgerðar. Taldi Gestur réttilega, að Valgerður yrði að segja meira, svo að botn fengist í orð hennar.