6.7.2007

Persónuvernd í 25 ár.

Það er ekki á hverjum degi boðið til afmælisveislu í tilefni af gildistöku laga – en við komum hér saman í dag til að minnast þess, að 25 ár eru liðin frá því, að fyrstu lögin um skráningu og vernd persónupplýsinga komu til framkvæmda hér á landi, það er lög um skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni.

 

Vissulega er verðugt, að Persónuvernd bjóði okkur hingað í dag til að minnast þessara tímamóta. Vil ég þakka fyrir boðið og fyrir hið góða framtak að fagna þessum lögum, sem hafa eins og öll önnur lög reynst barns síns tíma. Lögin hafa tekið út þroska sinn með breytingum í samræmi við hina öru þróun á  sviði persónuverndar undanfarin ár.

 

Við gerum okkur öll sæmilega grein fyrir því, hvert hlutverk Persónuverndar er og hefur verið. Markmið laganna um hið opinbera stjórnsýsluverkefni, sem stofnunin sinnir, er að tryggja að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við lög og virðing borin fyrir þeim við þær aðstæður, þegar söfnun upplýsinga, miðlun þeirra og myndun gagnagrunna í krafti þeirra verður sífellt auðveldari og umfangsmeiri.

 

Fyrir 25 árum sáu lagasmiðir ekki fyrir þróunina á þessu sviði en samt var ýtt úr vör og síðan hefur verið tekist á um margvísleg álitamál, sem tengjast persónuvernd og á stjórnmálavettvangi ber deilurnar um gagnagrunn á heilbrigðissviði einna hæst – en eins og við vitum hefur hann í raun aldrei komist í gagnið. Í þeim umræðum öllum vakti ekki síst athygli, hve fús almenningur var að heimila notkun lífssýna í von um, að hún gagnaðist til að sigrast á sjúkdómum.

 

Ég ætla mér ekki þá dul að ráða í framtíðina á þessu sviði, breytingarnar eru svo örar.

 

Nýlega las ég pistil í The New York Times eftir dálkahöfund blaðsins Thomas L. Friedman, sem er heimsfrægur fyrir bók sína The World is Flat.  Friedman helgar sig því að greina stefnur og strauma samtímasögunnar til að ráða í framtíðina og undir fyrirsögninni Fyrir augum alls heimsins segir hann meðal annars:

 

„Fyrir þremur árum var ég að ná í flugvél á Logan-flugvelli í Boston og fór í blaðabúð til að kaupa tímarit til að lesa í vélinni. Þegar ég kom að afgreiðsluborðinu, gekk kona í flasið á mér og fannst mér hún koma rétt á eftir mér að borðinu. Þegar ég reiddi fram greiðslu, sagði hún hins vegar stundarhátt: „Fyrirgefðu, en ég var á undan þér!“ Síðan starði hún stingandi augnaráði á mig og bætti við: „Ég veit, hver þú ert.“ Ég baðst innilega afsökunar, þótt ég væri viss um að hafa komið á undan henni að kassanum.

 

Gerðist þetta í dag, brygðist ég við á allt annan hátt. Ég segði: „Ég bið yður innilega afsökunar á þessum misskilningi mínum, kæra frú. Gjörið svo vel. Má ég borga tímaritin fyrir yður? Mætti bjóða yður hádegisverð? Kannski gæti ég pússað skóna yðar?“

 

Hvers vegna þessi breyting? Jú, vegna þess að ég teldi eins líklegt, að konan héldi úti bloggsíðu eða hún hefði myndavél í farsímanum sínum og gæti, ef hún vildi, sagt öllum heiminum sína hlið á því, þegar hún hitti mig, og lýst dónaskap mínum, ruddamennsku, frekju og yfirgangi.

 

Þegar allir eru bloggarar, eiga MySpace síðu eða Facebook, eru allir útgefendur. Þegar allir eiga farsíma með myndavél, eru allir paparazzar. Þegar allir geta sett myndband á YouTube, eru allir kvikmyndagerðarmenn. Þegar allir eru útgefendur, paparazzar eða kvikmyndagerðarmenn eru allir aðrir opinberar persónur. Núna erum við öll opinberar persónur. Bloggheimurinn hefur dýpkað hnattræn samtöl og samskipti – og auðveldað að sjá í gegnum okkur hvert og eitt.“

 

Ágætu gestir!

 

Megininntak persónuverndar er og hefur verið að sjá til þess, að upplýsingar, sem safnað er um okkur, séu ekki notaðar á þann veg, að líf okkar sé án okkar samþykkis eins og opin bók fyrir aðra – við getum átt einhver einkamálefni.

 

Spyrja má: Er sá tími liðinn að lög um persónuvernd veiti hina nauðsynlegu vörn? Hefur aðgangur allra að tölvum og netheimi breytt öllu umhverfi okkar í opinberan vettvang?

 

Séu svörin við þessum spurningum já, kunna enn að verða gerðar nýjar kröfur til löggjafans á þessu sviði. Enn verði leitað nýrra leiða til að vernda einkamálefni með opinberum reglum og eftirliti.

 

Kannski eru því engin takmörk sett, hve miklar kröfur unnt er að gera til löggjafar og stjórnsýslustofnana, þegar persónuvernd á í hlut. Líklegt er þó, að til séu mörk milli þess, sem krafist er af hinu opinbera annars vegar og okkur sjálfum hins vegar.

 

Reynsla Friedmans á Logan-flugvelli varð honum einmitt tilefni til að velta þessum mörkum fyrir sér. Niðurstaða hans er, að í hinu nýja umhverfi skipti mestu, hvernig framganga okkar sjálfra er – fari hún út fyrir viðtekin mörk, sé eins líklegt, að frávikið sé skráð á þann veg í netheima, að það fylgi okkur alla tíð, án þess að við fáum rönd við reist.

 

Með öðrum orðum: Engin lög um persónuvernd geta losað okkur undan því að líta í eigin barm og vera sjálf ábyrg í lífi og starfi.

 

Ég ítreka þakkir mínar til Persónuverndar fyrir frumkvæði hennar að þessum mannfagnaði hér í dag. Jafnframt vil ég þakka stjórn og starfsmönnum stofnunarinnar störf þeirra – viðfangsefnin þeirra eru mörg og oft viðkvæm og miklu skiptir, að til allra þátta verði áfram vel vandað.