9.7.2007 20:46

Mánudagur, 09. 07. 07.

Í nýjasta hefti af The Spectator les ég þetta eftir Charles Moore:

„Endalaus rigning. Venjulega eru mýs aðeins að hrella okkur á veturna. En þegar túnin eru svona blaut hefur húsið okkar orðið fyrir miðsumar-árás. Síðustu tvær vikur höfum við náð í 18 mýs. Við frystum þær og förum með þær í uglu-skjól sveitarinnar.“

Ég las í málfarsdálki Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu, að í fasteignaauglýsingu hefði verið sagt, að hin fala íbúð væri „stödd“ við einhverja götu í borginni. Hvert ætli hún sé komin núna?

Eftir að hryðjuverkamenn óku á flugstöðvarbygginguna í Glasgow sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands: „Hin gömlu skil milli öryggis innan og utan landamæra eru horfin. Við verðum að hugsa málin alveg upp á nýtt.“ Í Þýskalandi fara nú fram miklar umræður um, hvort breyta eigi stjórnarskránni á þann veg, að herinn megi láta að sér kveða í aðgerðum innan Þýskalands.