6.7.2007 22:39

Föstudagur, 06. 07. 07.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og þar kynnti Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra þá ákvörðun sína, að heildarþorskafli skyldi vera 130 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Einnar hefur staðið vel að öllum undirbúningi ákvörðunar sinnar og nýtur hún stuðnings ríkisstjórnarinnar.

Þegar ég kom út af ríkisstjórnarfundinum, vildu fjölmiðlamenn vita um afstöðu mína til þeirrar niðurstöðu mannréttindadómstóls Evrópu að hnekkja dómi hæstaréttar í máli fjölfatlaðrar stúlku. Henni voru dæmdar bætur af fjölskipuðum dómi í héraði, hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu en mannréttindadómstóllinn var ósammála hæstarétti.

Landlæknir hefur sagt í tilefni af dómi mannréttindadómstólsins, að rúmlega 60 ára gömul lög um læknaráð séu barns síns tíma og þau þurfi að endurskoða - ég er sammála því en sagði við fréttamennina, að lögin væru ekki á mínu forræði og þess vegna ekki mitt að gera tillögu um breytingu á þeim. Ég heyrði síðar í fréttum, að heilbrigðisráðherra, sem hefur forræði laganna, hugar að breytingu á þeim og styð ég hann í því.

Ég tók enga afstöðu til þess, hvort niðurstaða mannréttindadómstólsins væri áfellisdómur yfir hæstarétti eða álitshnekkir fyrir hann - dómar væru dómar og þeim bæri að hlíta. Fyrirsögn á mbl.is um orð mín gefur ekki rétta mynd af þeim. Ég tek einfaldlega ekki undir með þeim, sem telja niðurstöðu æðra dómsstigs álitshnekki fyrir hið lægra eða áfellisdóm yfir því. Dómar tala fyrir sig sjálfir og orð mín eða annarra breyta engu um inntak þeirra - dómum ber hins vegar að hlíta.

Síðdegis flutti ég ávarp í móttöku Persónuverndar í tilefni af 25 ára afmæli laga um persónuvernd, þar lét ég þess getið, að lögin væru barns síns tíma - ætli það verði ekki eitthvað uppnám út af því, eins og áður þegar ég hef sagt þetta um lög.

ps. vefstjóri mbl.is breytti fyrirsögn á frétt vefjarins um mannréttindadómstólinn og hæstarétt og færði hana í samræmi við orð mín - fyrirsögninni varð hins vegar ýmsum bloggurum tilefni til árása á mig og hún varð einnig kveikja að frétt í Fréttablaðinu 7. júlí.