25.7.2007 20:44

Miðvikudagur, 25. 07. 07.

Hið mikla fjölmenni við minningar- og kveðjuathöfn um Einar Odd Kristjánsson í Hallgrímskirkju í dag var enn til marks um, hve víðtæk tengsl hans voru í þjóðlífinu. Að sitja með honum á þingi og í þingflokki í 12 ár var eftirminnilegt vegna einurðar hans og þunga í málflutningi, svo að ekki minnst á gleðina í kringum hann. 

Frá 1999 var Einar Oddur varaformaður fjárlaganefndar. Hann var kallaður til og hafður með í ráðum um allar stefnumarkandi ákvarðanir í ríkisfjármálum á þessum árum. Í þingsölum og utan þeirra var á hann hlustað, þegar hann kvaddi sér hljóðs um ríkisfjármálin. Hann lá ekki á skoðunum sínum og nálgaðist mál oft úr annarri átt en ráðuneyti eða opinberir ráðgjafar.

Ég kynntist því fyrst sem menntamálaráðherra og síðar sem dóms- og kirkjumálaráðherra, hve vel Einar Oddur var að sér um einstaka fjárlagaliði. Væri leitað til hans af félögum eða einstaklingum vegna einstakra verkefna, rak hann þau erindi af samviskusemi. Hann hafði einlægan áhuga á menningarmálum og beitti sér fyrir fjárveitingum til margvíslegra menningarlegra viðfangsefna um land allt. Við vorum ekki endilega sammála um aðferðafræði við úthlutun fjármuna til einstakra verkefna en deildum ekki um verkefni, sem nutu stuðnings á fjárlögum. Fyrir farsæld í samskiptum við Einar Odd skipti sköpum, að hann fór aldrei í launkofa með skoðanir sínar eða skildi mann eftir í óvissu - hann þorði að taka af skarið og standa og falla með skoðunum sínum.

Hér á síðunni hef ég oftar en einu sinni lýst aðdáun minni á þýsku Óskarsverðlaunamyndinni Das Leben der Anderen (Líf annarra). Í framhaldi af því vil ég  halda því til haga, að Ulrich Mühe, aðalleikari myndarinnar, STASI-starfsmaðurinn, er látinn aðeins 54 ára að aldri, magakrabbamein leiddi hann til dauða.