26.7.2007 18:46

Fimmtudagur, 26. 07. 07.

Fór síðdegis um borð í togskipið Brimnes, nýtt skip Brims, sem liggur við Ægisgarð. Skipið er frá árinu 2003 og var smíðað fyrir Norðmenn en hefur nú verið endurgert fyrir veiðar og vinnslu Brims. Skipið er stórt og glæsilegt, ekki síst brúin, en þar var margt um manninn og rúmaðist fjöldinn vel, þegar boðnar voru pönnukökur og vöflur með sultu og rjóma. Skipið er bæði til botnfisks- og rækjuveiða auk fullkomins búnaðar til vinnslu um borð.

Í Kastljósi kvöldsins og í gærkvöldi var fjallað um, hvernig ráðherrar hafa ráðstafað því fé, sem þeir hafa á fjárlögum til að verja til verkefna að eigin ákvörðun - ráðstöfunarfé ráðherra, eins og það heitir í fjárlögum, en það er mismikið eftir ráðuneytum.

Hafi einhverjir haldið, að með umfjöllun sinni væri Kastljós að upplýsa eitthvað, sem áður hefur verið hulið, er það misskilningur. Ráðherrar eru reglulega spurðir um þetta á alþingi og þar eru tölur birtar opinberlega í heild, sem ekki var gert í Kastljósi.

Hafi ætlunin verið að leiða í ljós, að ráðstöfun ráðherra á þessu fé væri á skjön við lög og reglur, tókst það ekki - fjármunirnir eru til ráðstöfunar fyrir ráðherra og þótt starfsmönnum Kastljóss kunni að þykja, að því hefði átt að ráðstafa öðru vísi en gert hefur verið, skiptir það í raun engu.

Í Kastljósi var notað orð um ráðstöfunarféð - „skúffufé“ - sem ég hafði ekki heyrt áður. Á þessi nafngift að gefa þá hugmynd, að um eitthvert pukur sé að ræða í kringum ráðstöfun þessa fjár? Sé svo, er um rangnefni að ræða.