7.5.2007

Engin hornreka í Evrópu

Grein í Morgunblaðinu 7. maí 2007.

 

 

 

Í baráttu frönsku forsetaframbjóðendanna var Nicolas Sarkozy einarður í andstöðu sinni við, að Tyrkir yrðu aðilar að Evrópusambandinu (ESB). Rök hans í málinu eru skýr: Tyrkland er einfaldlega ekki í Evrópu heldur Litlu-Asíu.

 

Í viðtali við bandaríska tímaritið The National Interest var Sarkozy spurður að því, hverjir teldust til Evrópu að hans mati. Hann sagði, að unnt væri að skilja á milli tveggja ríkjahópa. Í fyrri hópnum væru þau ríki, sem ættu eðlilegt sæti innan sambandsins. ESB væri opið fyrir öllum meginlandslöndunum (Sviss, Noregi og Balkanlöndunum) auk Íslands. Þessi lönd kæmu í sambandið, þegar þau gætu (Balkanlöndin) og ef þau vildu (hin löndin) með því skilyrði, að ESB væri fyrir sitt leyti tilbúið að taka á móti þeim með vísan til stjórnskipulags síns og stofnana. Í seinni hópnum nefndi Sarkozy til sögunnar ríki, sem hefðu ekki „eðlilegan rétt“ til að vera innan ESB, þau ættu land að Evrópu en væru ekki innan hennar, það er væru í Asíu eða handan Miðjarðarhafs.

 

Þessi skoðun Nicolas Sarkozys er í samræmi við það, sem segir í skýrslu Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Engin landfræðileg eða stórpólitísk hindrun er í vegi fyrir því innan ESB, að Ísland geti gerst aðili að sambandinu, ef Íslendingar ákveða að fara þá leið.

 

Þetta viðhorf gengur þvert á þær skoðanir, sem vart verður hér á landi hjá þeim, sem vilja hlut samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) sem minnstan og láta eins og Íslendingar séu vegna hans úti í horni og búi við einhverja afarkosti af hálfu Evrópusambandsins eða aðildarríkja þess. Málum er alls ekki þannig háttað. Kveddu Íslendingar dyra hjá ráðamönnum í Brussel og æsktu aðildar að ESB yrði þeim tekið fagnandi. Lögð yrðu fram öll skjöl og samningar, sem mynda umgjörð ESB, og sagt, að þetta yrði að samþykkja til að komast inn – ef eitthvað ylli vandræðum væri unnt að fresta framkvæmdinni en engar varanlegar undanþágur yrðu veittar.

 

Eftir tæplega þriggja ára störf í Evrópunefnd og meira en 40 fundi með sérfræðingum hér heima og erlendis, auk mikillar vinnu við gerð 136 bls. skýrslu nefndarinnar, er ég sannfærðari um það en áður, að ekki er nein nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðild bætti ekki hag okkar á neinn hátt, þvert á móti krefðist hún afsals fullveldis, afsals ákvörðunarvalds um veiðikvóta við Íslands og afsals frelsis til að gera samninga við þriðju ríki eins og Bandaríkin, Kanada, Kína og Indland, svo að dæmi séu tekin. Breytingum á stjórnskipulagi og stofnunum ESB, sem Sarkozy nefnir, er ætlað að auka stofnanaveldi og einsleitni innan ESB, þar sem smáríki hafa nú meiri áhrif í orði en á borði og óttast, að enn verði þrengt að hlut sínum.

 

Samfylkingin, ein flokka, hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar 12. maí. Fulltrúar flokksins stóðu hins vegar að sameiginlegu áliti Evrópunefndar, sem hefst á þessum orðum: „Nefndin telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hafi staðist tímans tönn og hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggjast á og rétt er að þróa áfram.“

 

Í þessum orðum eða öðru, sem fram kemur í skýrslu Evrópunefndar, felst ekkert vantraust á EES-samninginn. Þar er ekki heldur að finna neinar efasemdir um gildi hans eða um að hann sé ekki virtur af öllum samningsaðilum.

 

Þegar rætt er um nauðsyn aðildar Íslands að Evrópusambandinu, er einfaldlega rangt að færa fram þau rök, að EES-samningurinn dugi ekki lengur. Þau standast ekki. Einnig er rangt að láta eins og Íslendingar séu hornreka í Evrópu utan ESB. Það stangast á við allt, sem Íslendingar og fyrirtæki þeirra hafa verið að gera í Evrópu á undanförnum árum.