30.12.2014 17:30

Þriðjudagur 30. 12. 14

Ræðuritari Angelu Merkel Þýskalandskanslara tók texta í smíðum með sér á USB-kubbi heim til sín. Þegar hún setti kubbinn aftur í tölvuna í kanslarahöllinni í Berlín birtist viðvörun. Í kubbnum var forrit sem gat miðlað öllu úr tölvum notandans til óviðkomandi. Sagt er að NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, og GCHQ, hlerunarstofnun Bretlands, noti þetta forrit til afritunar og hlerunar!

Leitað var að forritinu í 200 tölvum kanslarahallarinnar. Það fannst aðeins hjá ræðuritaranum.

Nýlega bárust fréttir frá Noregi um fjarskiptabúnað í miðborg Oslóar sem beindist að farsímum þingmanna, ráðherra og embættismanna. Unnt var að fylgjast með ferðum þeirra og hlera símtöl.

Brotist var inn í tölvukerfi Sony-kvikmyndafyrirtækisins og stolið viðkvæmum upplýsingum sem hótað var að birta opinberlega ef sýnd yrði kvikmynd fyrirtækisins um tilræði gegn leiðtoga Norður-Kóreu. Sony hætti við að sýna myndina en lét síðan undan þrýstingi. Sony rakar nú inn fé fyrir myndina. Á skömmum tíma hafa ókunnir aðilar lokað tvisvar sinnum fyrir öll netsamskipti í N-Kóreu.

Hér eru tíunduð atvik frá síðustu dögum. Þau sýna að njósna- og skemmdarverkastríðið í netheimum tekur á sig ýmsar myndir. Enginn er óhultur.

Aldrei er skýrt frá neinu sambærilegu opinberlega hér á landi. Er það vegna þess að Íslendingar eru „stikkfrí“ í þessu stríði? Eða er það vegna þess að menn halda að Íslendingar séu „stikkfrí“ og þess vegna gerist aldrei neitt fréttnæmt?