Föstudagur 12. 12. 14
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði föstudaginn 12. desember kröfu um endurupptöku á máli hælisleitandans Tonys Omos.
Tony Omos kom hingað til lands með flugi frá Kaupmannahöfn 17. október 2011 og framvísaði hann við komuna kanadísku vegabréfi í eigu annars manns. Daginn eftir óskaði hann eftir hæli hér á landi og var hælisskýrsla síðan tekin af honum. Hann sagðist á leið til Kanada, hann ætti unnustu í Toronto. Vegna anna í innanríkisráðuneytinu tók 15 mánuði að afgreiða hælisumsókn hans en henni var endanlega hafnað og hann sendur landi 18. desember 2013. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 12. desember 2014 að hvorki útlendingastofnun né innanríkisráðuneyti ætti að taka mál Omos upp að nýju. Brottvísun hans stendur óhögguð.
Ein helsta krafa um endurupptöku málsins var reist á því að á hinum langa tíma, tveimur árum, sem tók að afgreiða hælisumsóknina, hefðu persónulegir hagir Omos breyst. Þannig væri hann í sambandi við íslenska konu en hefði áður verið í sambandi við konu að nafni A. Sú hefði stöðu hælisleitanda og ætti von á barni. Omos væri hugsanlega faðir barnsins. Í niðurstöðu dómara segir: „Kom framangreind A fyrir dóminn og sagði stefnanda [Omos] vera föður barns hennar sem hefði fæðst 3. febrúar 2014. Engin gögn liggja þó fyrir í málinu er staðfesta faðerni barnsins.“ Einnig kom fram að móðurbróðir Omos væri búsettur hérlendis og við aðalmeðferð málsins hefði B gefið skýrslu en hún segðist vera hálfsystir Omos og að hún hefði komið til landsins í júlí 2012.
Dómarinn segir að þrátt fyrir að Omos kunni að hafa stofnað til framangreindra sambanda og vinatengsla á meðan mál hans var hér til meðferðar og að tilgreindir ættingjar hans hafi komið hingað til lands í kjölfar komu hans til landsins breyti það ekki því að koma hans til landsins og dvöl tengdust einungis umsókn um hæli hans hér á landi en ekki því að hann hefði átt hér fjölskyldu eða ættingja.
Það var ekki fyrr öll önnur efnisrök reyndust haldlaus gegn brottvísuninni að tekið var til að krefjast hælis fyrir Omos hér á landi í krafti fjölskyldutengsla. Þar reið Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, fyrstur á vaðið opinberlega með viðtali við Omos í DV 18. nóvember 2013 þegar við blasti að hann yrði fluttur úr landi. Reiði vina Omos vegna skjalsins sem var lekið úr innanríkisráðuneytinu má rekja til þess að þeir töldu það veikja þennan málstað sinn.