Laugardagur 06. 12. 14
Carl Bildt, fyrrv. utanríkisráðherra Svía úr Moderata-flokknum (mið-hægri), segir á vefsíðu sinni í dag að fráleitt sé fyrir Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra jafnaðarmanna, að láta eins og hann hafi lagt sig í líma við að stofna til samstarfs milli minnihlutastjórnar sinnar og borgaraflokkanna. Miklu nær sé að segja að ríkisstjórnin hafi hallað sér alltof langt til vinstri. Þá hafi Magdalena Andersson fjármálaráðherra hvað eftir annað vegið að borgaraflokkunum og sagt að hún mundi þrýsta vinstri-fjárlögunum í gegnum þingið hvað sem tautaði og raulaði. Ríkisstjórnin féll af því að hún hafði ekki þingmeirihluta fyrir fjárlögunum.
Bildt segir að í ljós komi hvort innflytjendamál verði stóra mál kosningabaráttunnar fram til 22. mars 2015. Nauðsynlegt sé að ræða þau og átta sig á vandanum vegna þeirra, hann minnki ekki. Bildt telur vandann ekki fyrst og fremst felast í fjölda innflytjenda heldur felist hann í aðlögun þeirra, hana verði að stórbæta. Í því efni hafi vinstri flokkarnir alfarið brugðist. Það stafi meðal annars af því að breytt aðlögunarstefna rekist á nokkrar heilagar kýr vinstri manna eins og aukið frjálsræði á vinnumarkaði. Með þvermóðsku leggi þeir vopn í hendur andstæðinga innflytjenda. Þessa hlið málsins þurfi að ræða meira og hún hafi ekkert með Svíþjóðardemókratana að gera. Stefan Löfven réðst þá í blaðagrein í dag og kallaði ný-fasista eins og sjá má hér. http://evropuvaktin.is/stjorn/?gluggi=skjal&tegund=stjornmalavakt&id=34487
Í dag var ég á Facebook spurður álits á ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá starfandi dómsmálaráðherra, um að flytja lögregluna á Hornafirði úr suðurliði í Austfjarðalið, Svar mitt er:
Í fyrsta lagi tel ég fagnaðarefni að lögregluumdæmin stækki. Í öðru lagi er skynsamlegt að lögregluumdæmi falli að kjördæmamörkum þótt fleiri en eitt umdæmi sé innan sama kjördæmis. Í þriðja lagi ber að líta til þess að sveitarfélagið Hornafjörður teygir sig allt til Skaftafells og þangað kann að vera fljótlegra að sinna erindum frá Kirkjubæjarklaustri en Höfn. Í fjórða lagi hefði með samvinnu milli lögregluumdæma innan NA-kjördæmis mátt fjölga í Austfjarðaliðinu. Í fimmta lagi hefur allur undirbúningur um langt skeið lotið að því að Hornafjörður sé í suðurliðnu. Séu rök sem hnekkja þessum sjónarmiðum hef ég ekki enn heyrt þau. Komi þau fram ber að leggja mat á þau.