20.12.2014 19:15

Laugardagur 20. 12. 14

Í gær vakti ég athygli á grein í nýjasta hefti Þjóðmála eftir Matti Friedman. Lesandi síðunnar benti mér á að Friedman hefði skrifað skelegga grein um sama efni í tímaritið The Atlantic fyrir skömmu og má nálgast hana hér.

Nú í vikunni var vakin athygli á deilu innan Harvard-háskóla í Bandaríkjunum vegna þess að matsala skólans, Harvard University Dining Services, hætti viðskiptum við SodaStream, fyrirtæki í Ísrael sem um þessar mundir hefur starfstöð á Vesturbakkanum. Ákvörðun um að hætta viðskiptunum var tekin í kyrrþey fyrr á þessu ári fyrir þrýsting frá Harvard College Palestine Solidarity Committee. Taldi þessi stuðningshópur Palestínumanna að í ljósi átaka Ísraela og Palestínumanna ylli það ýmsum nemendum óþægindum að verða að sækja vatn í stauta frá SodaStream. Hætti matsalan viðskiptum við fyrirtækið í apríl 2014.

Það var ekki fyrr en átta mánuðum síðar, miðvikudaginn 17. desember, sem ákvörðunin um viðskiptabannið komst í hámæli innan Harvard-háskólasamfélagsins þegar sagt var frá því í The Harvard Crimson, dagblaði háskólans. Þar til þá vissi Drew Faust, rektor Harvard, ekkert um þetta og nú er hafin rannsókn á hvernig að töku ákvörðunarinnar var staðið. SodaStream tilkynnti í október að fyrirtækið mundi flytja starfstöð sína á miðju næsta ári frá Vesturbakkanum til bæjar í Suður-Ísrael.

Þetta litla dæmi frá Harvard sýnir hve langt deilan vegna Ísraels teygir sig og hvaða ráðum er beitt til að bregða fæti fyrir Ísraela. Stundum heyrast raddir hér á landi um að hætta eigi viðskiptum við Ísraela og til dæmis að hætta að veita ferðamönnum þaðan eðlilega þjónustu.

Má rekja viðbrögð á Vesturlöndum til þess sem menn lesa eða heyra í fjölmiðlum, einmitt þess vegna er áhugavert að kynna sér það sem Matti Friedman hefur fram að færa um hvernig staðið er að miðlun þessara frétta.

Ferðamálastofa segir að 915.465 erlendir ferðamenn farið frá landinu til 1. desember í ár eða um 176 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 23,8% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Um 61 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nóvember eða 14.400 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Aukningin nemur 31% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei mælst fleiri í nóvember frá því að mælingar hófust.