4.12.2014 20:40

Fimmtudagur 04. 12. 14

Ólöf Nordal varð innanríkisráðherra í dag að tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Kom val Bjarna á óvart en tillaga hans var samþykkt einróma á þingflokksfundi í Valhöll í morgun. Fyrsta val Bjarna var Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis. Hann hafði ekki áhuga á að víkja úr forsetasætinu og hafnaði tilmælum Bjarna.

Einar K. var augljós kostur bæði vegna mikillar reynslu og sem oddviti í kjördæmi sem ekki á ráðherra í hópi sjálfstæðismanna.  Á stjórnmálavettvangi gilda ákveðin lögmál – þar á meðal að öll kjördæmi eiga kröfu til ráðherraembættis eða ígildis þess eins og forsæti á alþingi er.

Í Reykjavík eru tvö kjördæmi. Með brotthvarfi Hönnu Birnu úr ríkisstjórn missti annað þeirra þingmann auk þess sem fækkaði um konu í ríkisstjórninni. Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Reykvíkinga áður en Hanna Birna var kjörin á þing árið 2013. Með þetta í huga var rökrétt að Bjarni hugsaði til hennar úr því að hann ákvað á annað borð að „hugsa út fyrir kassann“ í leit að ráðherra.

Er fagnaðarefni að Ólöf skyldi verða við tilmælum Bjarna. Með henni kemur reynslumikill stjórnmálamaður inn í ríkisstjórnina, lögfræðingur með sérstakan áhuga á dóms- og lögreglumálum tekur við embætti innanríkisráðherra. Verður það vonandi til að rétta hlut dómsmálanna innan innanríkisráðuneytisins og styrkja áformin um að til verði sérstakt dómsmálaráðuneyti að nýju.

Undarlegt þótti að svo langan tíma tæki að finna nýjan ráðherra í stað Hönnu Birnu. Þegar niðurstaðan liggur fyrir er ljóst að ástæðan fyrir fresti Bjarna er að hann lenti í vanda eftir að Einar K. hafnaði tilmælum hans. Enginn gat í raun vænst þess að Ólöf stigi hið stóra skref án þess að fá ráðrúm til umhugsunar. Með farsælli ákvörðun styrkti Bjarni stöðu sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins.