1.12.2014 19:00

Mánudagur 01. 12. 14

Þátt minn á ÍNN frá síðasta miðvikudegi má sjá núna á netinu, sjá hér. Ég ræði við Sigríði Hjartar í Múlakoti í Fljótshlíð um verndun gamla bæjarhússins á staðnum þar sem rekið var hótel um langt árabil, stunduð garðrækt og listamannalíf.

Í dag setti ég á FB-síðu mína krækju á myndband sem hefur verið gert til að sýna að það geti ekki verið að flugvélin sem fórst við Smólensk í Rússlandi 10. apríl 2010 og forseti Póllands auk um 100 annarra manna með henni hafi verið komin niður undir jörð þegar hún splundraðist. Það hljóti að hafa gerst á meðan flugvélin var hærra á lofti. Hér má sjá þetta myndband.

Höfundur Staksteina í Morgunblaðinu í morgun ræðir ákvörðun ríkisstjórnar og fjárlaganefnar um að leggja ríkisútvarpinu til meira fé en áður hafði verið ákveðið. Í Staksteinum segir:

„Og hver er svo skýring stjórnvalda á því hvers vegna haldið er áfram að auka við framlagið til Ríkisútvarpsins á meðan ýmis grunnþjónusta býr við mikla skerðingu auk þess sem ekki er hægt að lækka skatta á almenning? Jú, uppgefin skýring er á þá leið að viðbótarframlaginu sé sett það skilyrði að Ríkisútvarpið þurfi að halda eigin fjárhagsáætlanir!“

Rannsóknarefni er hve oft stjórnendur ríkisútvarpsins hafa lofað bót og betrun í fjármálum við afgreiðslu fjárlaga en síðan hefur ekki staðið steinn yfir steini. Sökudólginn er jafnan ekki að finna innan útvarpsins. Þar fara menn aldrei í meðferð sem einkennist af viðurkenningu á eigin sök. Allt er alltaf öðrum að kenna.

Grátkór ríkisútvarpsins notar alla fjölmiðla til að ala á þeirri skoðun að níðst sé ríkisútvarpinu. Lesendur Morgunblaðsins hafa kynnst þessum kór síðustu daga. Pétur Gunnarsson rithöfundur sagði til dæmis í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann mánudaginn 24. nóvember:

„Ég er uggandi um útvarp allra landsmanna. Það minnir á sært dýr. Úlfarnir hafa runnið á blóðslóðina og eru að gera sig líklega til að ráðast á það. Ég óttast að óvildarmenn RÚV til langs tíma ætli að nota núverandi ástand til að rýra, skerða og þrengja enn frekar að hag Ríkisútvarpsins.“

Miðað við alla milljarðana sem ríkisútvarpið hefur milli handa er með ólíkindum að menn sem almennt eru marktækir skuli taka þennan pól í hæðina þegar þess eins er krafist að útvarpið sé rekið innan setts fjárlagaramma.