Þriðjudagur 23. 12. 14 - Þorláksmessa
Guggenheim-stofnunin í New York í Bandaríkjunum hefur ákveðið að semja um 20 ára lengri afnot af safnhúsinu í Bilbao sem Frank Gehry teiknaði og opnað var árið 1997 með verkum frá Guggenheim. Byggingin og safnið hafa gjörbreytt áliti umheimsins á Bilbaó og orðið efnahag borgarinnar og Baskahéraðsins á Spáni mikil lyftistöng.
Að ákveðið var að opna deild frá Guggenheim í Bilbaó var nýmæli á þeim tíma þegar það var gert en nú færist í aukana að fræg listasöfn opni útibú í fjarlægum borgum: Louvre í París er með útibú í Abu Dhabi og borginni Lens í N-Frakklandi. Pompidou-safnið í París undirbýr útibú í Malaga á Spáni. Hermitage-safnið í St. Pétursborg hefur kynnt áform um útibú í Barcelona og þannig mætti áfram telja.
Í áranna rás hafa 17 milljónir manna heimsótt Guggenheim-safnið í Bilbaó, beint og óbeint skapar það atvinnu fyrir 5.000 manns.
Æskilegt er að fundinn sé staður á höfuðborgarsvæðinu fyrir safnahús sem jafnaðist á við Hörpu að glæsileika til að hýsa Listasafn Íslands og Náttúrugripasafn Íslands. Ef til vill kynni erlent stórlistasafn að hafa áhuga á að reka útibú á Íslandi. Þörfin fyrir slíkt hús er ljós öllum sem leiða að því hugann. Glæsileg listasafnhús sem sjá má víða um heim hafa mikið aðdráttarafl.
Þótt fundinn sé staður jafngildir það ekki að ráðist verði í framkvæmdir en móta verður stefnu og velja stað fyrir nýja byggingu fyrir listasafn og náttúrugripasafn. Þegar ég ræddi við hljómburðar-arkitektina sem hönnuðu Eldborgarsalinn á sínum tíma og spurði hve langan tíma tæki að framkvæma hugmyndir um tónlistarhús töluðu þeir um 13 til 18 ár og reyndist það rétt mat varðandi Hörpu.
Eldborgarsalurinn hefur aðdráttarafl eins og sannaðist til dæmis á dögunum þegar London Philharmonic Orchestra kom til að leika í honum. Hið sama gildir um þann sal og glæsilegar byggingar listasafna, hann kallar á þá sem vilja fá tækifæri til að kynna list sína við bestu aðstæður.