27.12.2014 16:40

Laugardagur 27. 12. 14

Franska blaðið Le Monde birtir leiðara í dag um ræðuna sem Frans páfi flutti sem jólakveðju yfir kúríunni mánudaginn 22. desember og ég íslenskaði að hluta eins og sjá má hér. Ber leiðarinn fyrirsögnina: Frans, valdaránspáfinn

Blaðið segir að með ræðunni hafi páfi lýst kúríunni stríð á hendur og veltir fyrir sér hvað vaki fyrir honum. „Jorge Bergoglio [Frans] gleymir ekki ástæðunni fyrir því að hann var kjörinn, hann, jesúítinn, argentískur kardínáli, fyrir 20 mánuðum af öðrum kardínálum til að koma í stað Benedikts XVI. sem sagði af sér: að moka flór Vatíkansins, það var verkefnið sem hinum nýja fullvalda páfa var falið. Frans hefur tekið þetta að sér og hann ætlar eftir öllum sólarmerkjum að dæma að sinna verkefninu af festu hvað sem það kostar og hvað sem það kann að kosta hann,“ segir blaðið og minnir á að hann hafi þegar kynnt breytingar á stjórn fjármála Vatíkansins og kallað á ytri endurskoðendur.

Hið mikla verk sem bíður Frans er að mati blaðsins ekki að hreinsa til í kúríunni heldur felist það í byltingarkenndum hugmyndum hans um að breyta valdahlutföllum innan kaþólsku kirkjunnar og kalla þar fleiri til áhrifa. Hann ætli að veikja miðstjórnina og færa vald út á jaðarsvæði. Hann vilji virkja presta  og leikmenn, karla og konur.

Markmið hans sé einnig að ráðast á ítök ítölsku kirkjunnar innan Vatíkansins, á þann  veg megi túlka ræðu hans yfir kúríunni. Hann sé þriðji páfinn í meira en fjórar aldir eftir Pólverjann Jóhannes Pál II. og Þjóðverjann  Benedikt XVI. sem ekki sé ítalskur og það sem sé enn athyglisverðara, hann er fyrsti páfinn sem er ekki Evrópumaður. Að þessu leyti sé hann mjög góður fulltrúi hins breiða fjölda meðal kaþólskra en þeir séu nú að meirihluta búsettir utan Evrópu. Hann vilji að áhrif þessa fjölda takmarkist ekki aðeins við páfann heldur birtist í fleiri valdastöðum.

Leiðara Le Monde lýkur á þessum orðum:

„Tekst Frans að ljúka þessu erfiða verkefni? Hverjar eru líkurnar á að hann sigri í þessari sókn gegn valdakerfi kirkjunnar? Jafnvel þeir sem fylgjast best með innan Vatíkansins hika við að spá nokkru um niðurstöðuna. Hitt er víst, hvað sem öðru líður, að árið sem brátt byrjar skiptir sköpum fyrir Kirkjuna – og yfirmann hennar.“