2.12.2014 19:10

Þriðjudagur 03. 12. 14

Fyrir nokkrum vikum var efnt til fundar um efnið: Hver er munurinn Vantrú og Siðmennt? Er þörf fyrir ólík félög efahyggjufólks?" Sindri Guðjónsson frá Vantrú og Sigurður Hólm frá Siðmennt svöruðu spurningunum. Hver þau voru veit ég ekki. Meira hefur hins vegar verið sagt frá málþingi sem Siðmennt hélt laugardaginn 29. nóvember um efnið: Þurfum við að óttast íslam? Þar flutti Sigurður Hólm erindi sem hann segir að vakið hafi hörð viðbrögð ýmissa, meðal annars líflátshótun.

Ibra­him Sverr­ir Agn­ars­son, formaður Fé­lags múslima á Íslandi, Guðrún Mar­grét Guðmunds­dótt­ir, doktorsnemi í mann­fræði, og Helgi Hrafn Gunn­ars­son þingmaður fluttu einnig er­indi á málþing­inu. Allar lýsingar benda til að mikill hiti hafi verið í ýmsum fundarmönnum. „Hit­inn var ekki frá múslim­um, þrátt fyr­ir að ég hafi talað í raun mjög skýrt gegn bók­stafstrú múslima kom gagn­rýn­in ekki þaðan,“ seg­ir Sig­urður við mbl.is.

Hann telur „að besta leiðin til að búa til öfga­hreyf­ing­ar sé að ein­angra fólkið sem er þess­ar­ar trú­ar þannig að því líði illa í sam­fé­lag­inu og finn­ist það utang­arðs“. Að sjálfsögðu gefur aldrei góða raun að einangra neinn eða setja honum afarkosti. Hitt er annað mál hvort sanngjarnt sé að skella skuldinni á aðra í þessu efni. Í því einu felst leið til einangrunar að velja sér samstað meðal fólks með allt aðra lífskoðun og trúarbrögð en maður sjálfur, neita að laga sig að samfélagi þess fólks og krefjast þess að þeir sem fyrir eru breyti siðum sínum.

Félagsmenn í Vantrú hafa ekki alltaf verið innan hóflegra marka í málflutningi sínum og ekki hikað við að svara þeim sem þeir telja sér óvinsamlega með rosta.

Aldrei á að hafa í heitingum og síst af öllu hóta einhverjum lífláti. Miðað við hve víða er fast að orði kveðið í garð einstaklinga vekur nokkra undrun hve oft menn kveinka sér undan að þung orð séu látin falla þegar rætt er um íslam eða trúarbrögð almennt.