14.12.2014 17:30

Sunnudagur 14. 12. 14

Tilraunir til að bregða fæti fyrir ráðherra og embættismenn einkenna DV, Reykjavík vikublað og Grapevine. Síðastnefnda blaðið er gefið út á ensku og þrífst á praktískum upplýsingum fyrir ferðamenn. Upplýsinga af því tagi er þó almennt leitað á netinu. Fyrir utan upplýsingamolana hafa blaðamenn á Grapevine um nokkurt árabil lagt sig í líma við að hallmæla borgaralegum stjórnmálaöflum í landinu. Að þessu leyti er blaðið í ætt við Reykjavík vikublað. Blöðin „pönkast á“ stjórnmálmönnum hægra megin við miðju en sækja gull í greipar þeirra sem leggja stund á viðskipti og kaupsýslu.

Atli Þór Fanndal blaðamaður er samnefnari blaðanna þriggja. Nú hefur hann tekið sér fyrir hendur á vefsíðu DV að hirta Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, fyrir að hringja til ritstjórnar Grapevine í því skyni að vara þá við að hafa allt gagnrýnislaust eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, blaðamanni á DV. Þetta lagðist illa í blaðamenn Grapevine og kvörtuðu þeir við Atla Þór sem hneykslast á Sigurði Má og segir: „Í frétt Grapevine kemur fram að þrátt fyrir hin ýmsu hneykslismál ríkisstjórnarinnar hafi lesendur ekki tilefni til að ætla að ríkisstjórnin sé alltaf að brjóta lög ef annað er ekki sérstaklega tekið fram.“ Þessi setning lýsir í hnotskurn efni Grapevine fyrir utan almennan fróðleik fyrir ferðamenn.

Atli Þór tekur sér fyrir hendur að skilgreina hlutverk blaðamanna og segir: „Hlutlægni felur í sér að það sem sett er fram standist kröfur um heimildavinnu og sé óháð skynjunum, viðhorfum og löngunum fólks.“ Blaðamennska Atla Þórs felst aðallega í að draga línur á milli staðreynda og leggja síðan fyrir lesendur mynd reista á eigin ímyndunarafli. Þetta verður seint kennt við hlutlæga blaðamennsku. Í gagnrýni sinni á Sigurð Má segir Atli Þór:

„Samtökin Fréttamenn án landamæra sendu nýlega frá sér yfirlýsingu þar sem upplýsingafrelsi á Íslandi er sagt hafa hnignað verulega frá því í hruninu. Er í því sambandi nefnt að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hafi farið í meiðyrðamál gegn tveimur blaðamönnum DV og krafist fangelsisrefsingar yfir þeim…“

Atli Þór lætur þess ógetið að Jóhann Páll og Jón Bjarki Magnússon átu ofan í sig orð sín um aðstoðarmanninn og báðust afsökunar. Þeir bitu síðan hausinn af skömm sinni með því að kenna eigendum DV um að þeir gerðu sátt í málinu. Hafi þeim verið misboðið og viljað halda sjálfstæði sínu áttu þeir að segja skilið við eigendur blaðsins. Rík ástæða er til að efast um hlutlægni blaðamanna sem starfa við þessar aðstæður þar á meðal Atla Þórs.