18.12.2014 22:00

Fimmtudagur 18. 12. 14

 

 

Viðtal mitt við Ófeig Sigurðsson, höfund skáldsögunnar Öræfi, á ÍNN frá 10. desember er nú komið á netið og má sjá það hér.  Skáldsagan hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu gagnrýnenda og nýtur vinsælda í bókaverslunum. Í samtalinu við Ófeig lýsir hann starfi sínu sem höfundur og ástæðunum fyrir að hann valdi sér þetta sögusvið.

Um svipað leyti og friðarverðlaun Nóbels voru afhent í Osló veittu þeir sem standa að friðarverðlaunum Konfúsíusar í Kína Fidel Kastró (88 ára), fyrrv. einræðisherra á Kúbu, Konfúsíusar-verðlaunin.  Töldu þeir að með friðarvilja sínum sem leiðtogi Kúbu hefði Kastró verið mikilvæg fyrirmynd annarra þjóðarleiðtoga. Hópur kúbverskra námsmanna tók við verðlaununum í Peking fyrir hönd Kastrós.

Þessi friðarverðlaun voru fyrst veitt árið 2010 þegar Lien Chan, fyrrverandi varaforseti Tævan, fékk þau. Árið 2011 komu þau í hlut Vladimírs Pútíns, þáv, forsætisráðherra Rússlands.  Árið 2012 var komið að Kofi Annan, fyrrv. aðalritara Sameinaða þjóðanna, sem verðlaunahafa og árið 2013 fékk Yi Cheng, Zen-meistari, verðlaunin.

Enginn verðlaunahafanna hefur látið svo lítið að koma til athafnarinnar þegar verðlaunin eru afhent. Sýnir það ekki mikla virðingu fyrir þeim sem að verðlaununum standa. Kínversk stjórnvöld hafa þvegið hendur sínar af verðlaununum og hafa lýst andstöðu við veitingu þeirra. Nú velur China International Peace Studies Center, hópur háskólamanna, verðlaunahafa og segist hann ekki hafa tengsl við stjórnvöld.

Allt er þetta næsta furðulegt eins og svo margt sem gerist í Kína þar sem oft er leitast við að endurgera það sem aðrir gera og breyta því í kínverskt frumkvæði. Fidel Kastró hefur ekki sést opinberlega á þessu ári síðan í janúar, hann tók þá þátt í athöfn þegar menningarmiðstöð var opnuð í Havana.

Í hálfa öld hefur Fidel Kastró helst náð sér á strik þegar hann flytu skammarræður um Bandaríkin. Nú hefur hann ekki lengur tilefni til þess.