Þriðjudagur 09. 12. 14
Í dag var Angela Merkel endurkjörin formaður kristilegra demókrata (CDU) á landsfundi flokks þeirra í Köln. Hún fékk 97,7% atkvæða, henni tókst því ekki að slá fyrra met sitt frá landsfundinum árið 2012 þegar hún fékk 97,9% atkvæða. Hún hefur verið kjörin átta sinnum síðan hún tók við formennsku flokksins árið 2000, minnst fylgi féll hún árið 2004, 88,4% atkvæða.
Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra sagði í samtali við Süddeutsche Zeitung mánudaginn 8. desember: „Angela Merkel talar ekki eins mikið um sigra sína og Napóleon en hún hefur náð meiri árangri.“
Á ruv.is segir í dag:
„Ferlið við að afnema gjaldeyrishöftin er vonandi á lokastigi, segir Lee Bucheit, einn af ráðgjöfum stjórnvalda. Ráðgjafarnir funduðu í dag með slitastjórnum föllnu bankanna þar sem þær lýstu skoðunum sínum til afnáms hafta.[…]
Bucheit segist bjartsýnn á að hægt verði að stíga stór skref í afnámi hafta fljótlega. „Stjórnvöld hafa sagt að þau vilji gera eitthvað snemma á næsta ári og ég tel það raunhæft.““
Þegar þetta er lesið vakna spurningar um trúverðugleika þeirra, einkum í Samfylkingunni, sem hafa haldið því fram í fimm ár að ekki sé unnt að losna úr gjaldeyrishöftum nema gengið sé í Evrópusambandið.
Það er efni í heila bók að rifja upp allt sem ESB-aðildarsinnar hafa sagt um leiðina úr höftum. Skyldu þeir láta til sín heyra núna og mótmæla áformum um afnám hafta utan ESB?