28.12.2014 19:30

Sunnudagur 28. 12. 14

Auður Jónsdóttir rithöfundur vekur í grein í vefblaðinu Kjarnanum athygli á að Mikkel Vuorela, menningarblaðamaður á danska blaðinu Politiken, hafi ritað grein um fjárhag RÚV. Greinin birtist miðvikudaginn 17. desember. Blaðamaðurinn segir að niðurskurður á RÚV sé að mati margra álitsgjafa svo mikill við afgreiðslu fjárlaga 2015 að hann jafngildi því að hætt verði öllum fréttaflutning, framleiðslu á öllu íslensku sjónvarpsefni eða lokun á báðum útvarpsrásunum. Þar að auki telji nokkrir fjölmiðlamenn að niðurskurðurinn kunni að vera einskonar pólitísk refsing vegna óánægju með pólitískan fréttaflutning RÚV.

Vitnað er í Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, sem segir áhyggjuefni í þessu sambandi að nokkrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi sagt opinberlega að RÚV sé „biased imod dem“, það er hlutdrægt gegn þeim og þeir hafi vald til að vængstýfa RÚV.

Þá vitnar blaðamaður Politiken í Hallgrím Thorsteinsson, ritstjóra DV, sem segir að niðurskurður hjá ríkisútvarpinu sé svar stjórnmálamanna við gagnrýni fréttastofu þess á þá. Er Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sérstaklega nefnd til sögunnar og segir Hallgrímur „fráleitt“ hvernig ríkisstjórnin fari með tölur, um sé að ræða  „reelle nedskæringer, som også han ser som et politisk angreb på journalistikken“, það er „raunverulegan niðurskurð sem hann telur einnig pólitíska aðför að störfum fréttamanna“.

Allt er þetta með nokkrum ólíkindum í ljósi þess sem Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í grein í Fréttablaðinu þriðjudaginn 23. desember undir fyrirsögninni RÚV – staðreyndum haldið til haga:

„Að lokinni afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015 liggur fyrir að framlag til RÚV milli áranna 2014 og 2015 hækkar umfram verðbólgu, en sú hækkun nær að sjálfsögðu engan veginn að vega upp þá raunlækkun sem orðið hefur á undanförnum árum og er fyrirhuguð aftur að ári.“  (Feitletrun mín.)

Grein sinni í Kjarnanum lýkur Auður Jónsdóttir á þessum orðum:

„Fólk í æðstu stöðum á Alþingi hefur nú sýnt af sér slíka grunnhyggni, tækifærismennsku, mannfyrirlitningu, ábyrgðarleysi og ég vona hreinlega fáfræði frekar en einbeittan vilja til að svipta kjósendur upplýstri umræðu að mig langar helst til að segja: Skammist ykkar!“

Allt er þetta reist á þeim misskilningi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi skorið niður fé til RÚV milli áranna 2014 og 2015 þegar hið gagnstæða er rétt. Spurning hlýtur að vakna um hver eigi í raun að skammast sín vegna þessara umræðna.