19.12.2014 16:30

Föstudagur 19. 12. 14

Desember-hefti tímaritsins Þjóðmála ( 4. hefti 10. árgangs) er komið út með fjölbreyttu efni eins og venjulega. Þar er meðal annars að finna grein eftir Matti Friedman, blaðamann í Ísrael, sem birtist sl. sumar í Tablet Magazine  í Bandaríkjunum. Þar afhjúpar hann einhliða fréttaflutning alþjóðlegra fréttastofa um Ísrael. Grein Friedmans vakti athygli og umræður þegar hún birtist án þess að því yrði hnekkt sem hann segir. Í greininni segir Friedman meðal annars:

„Þegar þeir sem bera ábyrgð á að skýra fyrir heiminum framvindu heimsmála, blaðamennirnir, telja að stríð gyðinga séu fréttnæmari en öll önnur stríð, þegar þeir lýsa gyðingum í Ísrael sem þeim aðila deilunnar sem hafi augljóslega rangt fyrir sér, þegar þeir sleppa öllu sem hugsanlega gæti réttlætt athafnir gyðinga og fela hið rétta andlit óvina þeirra, flytja þeir lesendum sínum — hvort sem þeir ætla sér það eða ekki — þann boðskap að gyðingar séu versta fólkið á jörðinni. Gyðingar eru tákn hinna illu vætta sem siðmenntað fólk lærir að fyrirlíta frá unga aldri. Alþjóðleg fréttamennska hefur breyst í siðfræðilegan leikþátt þar sem kunnuglegt illmenni er á ferð.“

Vegna þess hve mikil fyrirferð er á fréttum frá Ísrael hér á landi og hve margir eru fljótir að taka afstöðu gegn Ísraelum þegar þeir takast á við nágranna sína á greinin eftir Friedman brýnt erindi til þeirra sem lifa í fréttaumhverfinu á Íslandi eða taka þátt í að móta það.