3.12.2014 19:10

Miðvikudagur 03. 12. 14

Í dag ræddi við Jóhönnu Kristjónsdóttur á ÍNN um bók hennar Svarthvítir dagar og fleira. Má sjá þáttinn klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur stokkað upp á 365 miðlum og séð til þess að þar sé í lykilstöðum fólk sem fer að vilja hans við að beita fjölmiðlum fyrirtækisins gagnvart mönnum og málefnum þegar hann telur þess þörf. Við lestur á dálkinum Skjóðan í Markaðnum fylgiblaði Fréttablaðsins í dag, miðvikudaginn 3. desember, vaknar spurning um hvort Jón Ásgeir riti dálkinn undir dulnefninu Skjóðan.

Höfundurinn skeytir skapi sínu á Jóni H. B. Snorrasyni, aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og Sigurði Tómasi Magnússyni prófessor vegna frétta um að þeir hafi fengið verktakagreiðslur frá sérstökum saksóknara. Hvers vegna er Skjóðunni í nöp við þessa tvo menn? Af því að þeir voru saksóknarar í  Baugsmálinu. Augljóst er að Skjóðan hefur átt undir högg að sækja í því máli og nær ekki upp í nefið á sér fyrir reiði vegna þess þótt sex ár séu síðan dómur féll og Jón Ásgeir var sakfelldur.

Rifjað er upp í þessum nöldurdálki Markaðarins að ákæruatriðum í Baugsmálinu hafi verið vísað frá dómi. Skjóðan ætti að lesa bókina Í krafti sannfæringar sem Jón Steinar Gunnlaugsson sendi frá sér á dögunum þar sem hann fer meðal annars orðum um muninn á afstöðu dómara í Baugsmálinu til ákæru þar og til þeirra ákæra sem nú eru lagðar fyrir þá í efnahagsbrotamálum. Af orðum Jóns Steinars er auðvelt að ráða að annað sé uppi á teningnum nú en þá og kröfur dómara til ákæru í Baugsmálinu hafi verið óeðlilegar.

Á tíma Baugsmálsins beitti Jón Ásgeir fjölmiðlaveldi sínu í eigin þágu til að hafa áhrif á almenningsálit og dómara. Hann telur sig líklega hafa haft árangur sem erfiði. Enn heldur hann dauðahaldi í fjölmiðla og enn eru mál vegna hans rekin fyrir dómstólum.