Föstudagur 05. 12. 14
Um nokkurt skeið hefur verið látið eins og áhugamenn um starfsöryggi blaðamanna úti í heimi væru slegnir óhug vegna þess að Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, stefndi Jóna Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni blaðamönnum á DV fyrir að fara með rangt mál um hana. Nefnd voru til sögunnar samtökin Blaðamenn án landamæra, Alþjóðasamtök blaðamanna og International Modern Media Institute auk þess létu blaðamennirnir þess getið að rætt hefði verið um málshöfðunina gegn þeim á vefsíðu breska blaðsins The Guardian.
Í dag var tilkynnt að sátt hefði tekist milli Þóreyjar og blaðamannanna um að ummæli í blaðagrein sem Jóhann Páll og Jón Bjarki skrifuðu um rannsókn lögreglunnar á leka úr innanríkisráðuneytinu væru dauð og ómerk. Þá fær Þórey 330 þúsund krónur í sáttaskyni sem hún segist ætla að láta renna til Stígamóta. DV ehf, útgáfufélag DV, greiðir fjárhæðina til Þóreyjar.
Nú er spurning hvað hin alþjóðlegu samtök gera eftir að ljóst er að blaðamennirnir hafa orðið að lýsa ummæli í grein sinni dauð og ómerk og auk þess greiða Þóreyju fé í sáttaskyni. Þeir fara með öðrum orðum frá málinu sem ósannindamenn. Augljóst er að miðlað var einhverjum upplýsingum til útlanda í því skyni einu að kalla fram viðbrögð sem fældu Þóreyju frá að halda stefnu sinni fram fyrir dómara. Það bragð misheppnaðist og sitja menn víða um lönd nú eftir með sárt enni. Spurning er hvort Jón Bjarki og Jóhann Páll biðji þá afsökunar.
Jón Bjarki lætur sér afleiðingar óvandaðra skrifa um Þóreyju ekki að kenningu verða. Jón Bjarki „pönkast“ nú á Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og heldur fram ósannindum eins og þeim að stjórnmálaskoðanir hennar hafi ráðið því að hún var á sínum tíma skipuð aðstoðarríkislögreglustjóri eða lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hvað Jón Bjarki hefur fyrir sér í því efni er á álíka sterkum grunni reist og ummæli hans um Þóreyju Vilhjálmsdóttur sem hann þorði ekki annað en éta ofan í sig með sátt af ótta við þungan dóm.