Mánudagur 15. 12. 14
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Facebooksíðu sinni. „Viðbrögð flokkssystkina hans [menntamálaráðherra] eru að ræða um mikilvægi kirkjuheimsókna skólabarna á aðventunni. Djöfulsins teboðshræsni.“ Þingmaðurinn tók á þennan smekklega hátt upp hanskann fyrir afskipti Lífar Magneudóttur, varaborgarfulltrúa VG, sem er formaður mannréttindaráðs borgarinnar og varaformaður leikskóla- og frístundaráðs, af kirkjuferð nemenda í Langholtsskóla. Sagði Líf að heimsóknin í kirkjuna bryti í bága við samskiptareglur Reykjavíkurborgar við trúfélög þar sem flytja ætti hugvekju. Kvartanir hefðu borist frá foreldrum vegna kirkjuferða skóla í borginni.
Orð þingmannsins „djöfulsins teboðshræsni“ endurspegla fyrirlitningu hennar á bandarísku stjórnmálaafli. Demókratar í Bandaríkjunum reyna að færa andstæðinga sína í flokki repúblíkana undir merki teboðsins svonefnda en þátttakendur í því eru útmálaðir sem öfgamenn. Vindurinn lekur hratt úr þessari áróðursblöðru demókrata enda misheppnaðist þeim að treysta stöðu sína í nýlegum þingkosningum og misstu meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Líf og Sigríður Ingibjörg eru dæmigerðir fulltrúar stjórnmálaviðhorfa sem kalla fram hörð viðbrögð austan hafs og vestan. Í Frakklandi hafa verið stofnuð æskulýðssamtök undir heitinu Jeunes Euroréalistes. Í stefnuskrá þeirra segir að kynslóðin sem alist hefur upp við sameiginlegan innri markað ESB og Maastricht-sáttmálann hafi ekki notið ávaxtanna sem lofað var þegar þessi skref voru stigin til samruna í Evrópu og nauðsynlegt sé að endurskoða starfsemi ESB frá grunni.
Það sé einkum unga fólkið í ESB-löndunum sem megi þola fjöldaatvinnuleysi og öryggisleysi um afkomu sína vegna þess að grafið sé undan allri framleiðslustarfsemi. Þá sé lagt bann við því að menn minnist grísks, rómversks, kristins arfs Evrópu en rækt við slíkan arf sé forsenda þess að fólk finni sameiginlegan tilgang í lífi og starfi.
Líf Magneudóttir var í Kastljósi kvöldsins og áréttaði þá skoðun að líta bæri á íslenska þjóðfélagið sem fjölmenningarsamfélag og þar með ætti ekki að halda fram einum menningararfi umfram annan.
Þess verður ekki vart að þeir sem nú hrópa hæst um að vegið sé að íslenskri menningu og menningararfi vegna stöðu ríkisútvarpsins hafi áhyggjur af árásum á þessa sömu menningu í nafni fjölmenningar.