7.12.2014 16:00

Sunnudagur 07. 12. 14

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri ræðir málefni ríkisútvarpsins (RÚV) í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann á Morgunblaðinu, laugardaginn 6. desember. Að lokum snýst samtalið um hve hátt útvarpsgjaldið þurfi að vera, það er nefskatturinn sem landsmenn greiða vegna RÚV, til að Magnús Geir treysti sér til að „sinna lögbundnum skyldum“ fyrirtækisins. Verði gjaldið lækkað í 17.800 kr. á ári 2015 í stað 19.400 kr. eins og það er í ár hefði það í för með sér „mikla breytingu á starfsemi og hlutverki RÚV,“ segir Magnús Geir og einnig:„Það er ekki verið að fara fram á að útvarpsgjaldið hækki, heldur einfaldlega að það standi í stað,“. Við þær aðstæður treysti hann sér „til að leiða Ríkisútvarpið inn í bjartari tíma“ eins og hann orðar það. Í þessum orðum felst að það muni 1.600 kr. milli feigs og ófeigs.

Verði ekki orðið við þessari kröfu telur stjórn RÚV að alþingi vilji í raun „gjörbreyta hlutverki, skyldum og þjónustu Ríkisútvarpsins“ og „eðlilegt [sé] að fram fari sérstök umræða um það á Alþingi og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum. Ákvörðun um að breyta útvarpsgjaldinu verði ekki tekin fyrr en að henni lokinni“.

Þeir sem sjálfir eiga mikið undir að ekkert breytist á ríkisútvarpinu og það hafi nóg fé handa á milli kveða sumir fast að orði í umræðunum um fjárhag ríkisútvarpsins. Þeir eru hins vegar vanhæfir til að fjalla um málið sé litið til almennra leikreglna. Þar má meðal annars nefna Egil Helgason, þáttarstjórnanda og álitsgjafa, félaga í hljómsveitinni Skálmöld og ýmsa aðra sem óttast að missa spón úr aski sínum eða aðstöðu af einhverju tagi.

Vandi stjórnmálamanna við töku ákvarðana sem snerta fjárhag ríkisútvarpsins er sá að sagan kennir þeim að stjórnendur RÚV hafa svo oft sagt að fáist einhver ein hækkun þá hverfi allur vandi til framtíðar. Því miður hefur hækkunarbeiðnin varla fyrr verið samþykkt en einhver nýr pinkill er nefndur til sögunnar og sagt að hann eyðileggi öll góðu áformin um hina björtu framtíð.

Ríkisútvarpið er ekki eini opinberi miðillinn sem óttast framtíð sína við gjörbreyttar aðstæður í fjölmiðlun. Þegar ég var menntamálaráðherra fyrir 15 árum voru stjórnendur norrænu ríkisútvarpanna mjög uggandi um stöðu stofnana sinna og sendu sameiginlegt bréf til að biðja þeim verndar.