10.12.2014 19:45

Miðvikudagur 10. 12. 14

Í dag ræddi ég á ÍNN við Ófeig Sigurðsson, höfund skáldsögunnar Öræfi, sem hefur fengið góða dóma og notið vinsælda í bókaverslunum. Ég leitaði meðal annars álits Ófeigs á orðum sem féllu í Stokkhólmi sunnudaginn 7. desember þegar Frakkinn Patrick Modiano tók við bókmenntaverðlaunum Nóbels en í ræðu sinni ræddi hann hlutskipti skáldsagnahöfundarins. Viðtal okkar Ófeigs verður sýnt klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Málflutningur þeirra sem taka sér fyrir hendur að kalla á meira opinbert fé til ríkisútvarpsins er sérkennilegur eins og þegar hefur verið getið hér. Guðmundur Andri Thorsson líkir stofnuninni við Esjuna og hún verði að standa óhögguð þrátt fyrir gjörbreytt umhverfi í tækni og fjölmiðlun.

Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, hvarf nýlega frá ríkisútvarpinu og settist í stól Reynis Traustasonar. Hallgrímur endurómar sjónarmið fyrrverandi samstarfsmanna  í leiðara blaðs síns þriðjudaginn 9. desember. Hann segir meðal annars:

„Ríkisútvarpið sætir grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför um þessar mundir, líklega þeirri alvarlegustu sem dæmi eru um í langri sögu útvarps í almannaþágu á Íslandi. Aðförin miðar beinlínis að því að veikja fjárhagslega og menningarlega stöðu RÚV til frambúðar. Nú skal látið sverfa til stáls.“

Þetta eru stór orð og úr öllu samhengi við kröfurnar sem gerðar eru til stjórnenda ríkisútvarpsins um að virtur sé fjárhagsramminn sem löggjafinn ákveður hverju sinni við gerð fjárlaga. Að líkja þessu við „grimmilega og grímulausa pólitíska aðför“ ber vott um að allt jafnvægi skorti í málflutninginn. Í stað þess að færa fram rök setja menn sig í frekjulegar stellingar. Það sæmir ekki stöðu ríkisútvarpsins í samfélaginu og er til þess eins fallið að veikja ímynd þess.

Ný yfirstjórn ríkisútvarpsins fór illa af stað. Breytingar sem gerðar voru á dagskrá rásar 1 mæltust illa fyrir hjá traustustu hlustendum hennar. Gagnrýni var svarað af yfirlæti sem mátti í sumum tilvikum jafna við hroka. Sambærilegt viðhorf setur svip sinn á kröfugerðina um hækkun nefskatts í þágu ríkisútvarpsins. Hlustun og áhorf dregst saman og svarið af hálfu stofnunarinnar er að heimta meira fé af þeim sem hafa lítinn og minnkandi áhuga á því sem hún hefur fram að færa.

Að lemja á stjórnmálamönnum til að bæta stöðu ríkisútvarpsins í stað þess að ræða aðlögun starfsemi og dagskrár þess að nýjum aðstæðum er ekki annað en veruleikaflótti, minna málflytjendur stundum á jólasveina úr Esjunni.