Miðvikudagur 31. 12. 14 - gamlársdagur
Forvitnilegt er að velta fyrir sér aðdraganda þess að Sigrún Magnúsdóttir (f. 15. júní 1944) varð fimmti ráðherra Framsóknarflokksins á ríkisráðsfundi í dag. Morgunblaðið birti frétt laugardaginn 27. desember um að til stæði að Framsóknarflokkurinn fengi fimmta ráðherra sinn um áramótin, kæmi nafn Sigrúnar Magnúsdóttur þingflokksformanns helst við sögu og yrði hún umhverfis- og auðlindráðherra.
Eftir þetta hófust vangaveltur í fjölmiðlum þar sem ráðamenn Framsóknarflokksins komu annaðhvort af fjöllum eða vildu ekkert um málið segja. Þennan sama laugardag náði fréttastofa ríkisútvarpsins til dæmis í Vigdísi Hauksdóttur alþingismann. Hún var kynnt til sögunnar á þann veg hún hefði verið orðuð við ráðherraembætti. „Aðspurð hvort hún hefði áhuga á að taka að sér ráðherraembætti, sagðist hún þurfa að ræða það mál við formann flokksins, ef til þess kæmi,“ sagði á ruv.is
Þegar náðist í Sigrúnu sagði hún að enginn hefði orðað þetta við sig. Hún boðaði hins vegar þingflokksfund þriðjudaginn 30. desember, þar lagði Vigdís Hauksdóttir til að Sigrún yrði ráðherra og varð það niðurstaðan. Er henni óskað til hamingju og velgengni í starfi.
Það sannar djúpstæð ítök Morgunblaðsins í stjórnmálalífinu að blaðið skyldi flytja þingmönnum Framsóknarflokksins fréttina um að Sigrún yrði ráðherra hinn 31. desember. Blaðið missti hins vegar spóna úr aski sínum við áramótin við brottför Óskars Magnússonar útgefanda og blaðamannanna Kolbrúnar Bergþórsdóttur og Harðar Ægissonar úr Hádegismóum. Óskar hverfur til bústarfa í Fljótshlíðinni en Kolbrún og Hörður forframast á DV, hún sem ritstjóri og hann viðskiptaritstjóri.
Viðskiptaskrif Harðar í Morgunblaðið hafa oft verið upplýsandi um strauma og stefnur. Kolbrún lætur sig varða jafnt stjórnmál og menningarmál og hefur lagt margt gott og upplýsandi til þeirra mála og ekki versnaði framlag hennar þegar hún áttaði sig á villu síns vegar í ESB-aðildarmálinu. Verður spennandi að sjá hvernig henni tekst að leiða DV úr eyðimörkinni.
Myndin sem helstu stuðningsmenn ríkisútvarpsins hafa dregið af framtíð stofnunarinnar er svo svört að líklegt er að þeir telji að þar dragi til stórtíðinda á árinu 2015 vegna fjárskorts. Hallgrímur Thorsteinsson, fráfarandi ritstjóri DV, hefur verið ómyrkur í máli um það sem hann gjarnan kallar aðför sjálfstæðismanna að ríkisútvarpinu. Nú er hins vegar skýrt frá því að hann ætli að huga að hljóðvarpsrekstri á vegum nýrra eigenda DV. Skyldi hann búa sig undir að fylla í skarðið eftir að ríkisútvarpinu verður lokað?
Árið 2014 hefur verið viðburðaríkt ekki síst á alþjóðavettvangi en um það fjalla ég í pistli sem ég setti hér á síðuna í dag.
Ég þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu 2014.